Fjórða Mósebók

Kafla: 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 14 15 16 17 18 19 20 21 22 23 24 25 26 27 28 29 30 31 32 33 34 35 36


Kafla 4

1 Drottinn talaði við Móse og Aron og sagði:
2 "Takið tölu Kahats sona meðal Leví sona, eftir kynkvíslum þeirra, eftir ættum þeirra,
3 frá þrítugs aldri og þaðan af eldri til fimmtugs aldurs, alla herfæra menn, til þess að gegna störfum við samfundatjaldið.
4 Þetta er þjónusta Kahats sona við samfundatjaldið: Hið háheilaga.
5 Þegar herinn tekur sig upp, skulu þeir Aron og synir hans ganga inn og taka niður fortjaldsdúkbreiðuna og láta hana yfir sáttmálsörkina.
6 Og þeir skulu leggja þar yfir ábreiðu af höfrungaskinni og breiða yfir klæði, sem allt er gjört af bláum purpura, og setja stengurnar í.
7 Yfir skoðunarbrauðaborðið skulu þeir breiða klæði af bláum purpura og setja þar á fötin, bollana, kerin og dreypifórnarskálarnar, og hið ævarandi brauð skal vera á því.
8 Og yfir þetta skulu þeir breiða skarlatsklæði og leggja þar yfir ábreiðu af höfrungaskinnum og setja stengurnar í.
9 Þeir skulu taka klæði af bláum purpura og láta það yfir ljósastikuna, lampa hennar, ljósasöx og skarpönnur, og öll olíukerin, sem notuð eru við hana.
10 Og þeir skulu sveipa hana og öll áhöld hennar í ábreiðu af höfrungaskinnum og leggja á börur.
11 Yfir gullaltarið skulu þeir breiða klæði af bláum purpura og leggja þar yfir ábreiðu af höfrungaskinnum og setja stengurnar í.
12 Og þeir skulu taka öll áhöld þjónustugjörðarinnar, þau er höfð eru til þjónustugjörðar í helgidóminum, og sveipa þau í klæði af bláum purpura og leggja þar yfir ábreiðu af höfrungaskinnum og leggja á börurnar.
13 Og þeir skulu sópa öskunni af altarinu og breiða yfir það klæði af rauðum purpura.
14 Og þeir skulu leggja á það öll áhöld þess, sem höfð eru til þjónustu á því, eldpönnurnar, soðkrókana, eldspaðana og fórnarskálarnar, öll áhöld altarisins, og skulu þeir breiða yfir það ábreiðu af höfrungaskinnum og setja stengurnar í.
15 Er þeir Aron og synir hans hafa lokið því að breiða yfir helgidóminn og öll áhöld helgidómsins, þá er herinn tekur sig upp, skulu Kahats synir þessu næst koma og bera. En eigi skulu þeir koma við helgidóminn, svo að þeir deyi ekki. Þetta er það, sem Kahats synir eiga að bera við samfundatjaldið.
16 Eleasar, sonur Arons prests, skal hafa umsjón yfir olíunni til ljósastikunnar, ilmreykelsinu, hinni stöðugu matfórn og smurningarolíunni, umsjón yfir allri búðinni og öllum helgum hlutum, sem í henni eru, og áhöldum, er þar til heyra."
17 Drottinn talaði við Móse og Aron og sagði:
18 "Látið ekki kynþátt Kahatítanna upprættan verða úr levítunum,
19 heldur farið með þá á þessa leið, að þeir haldi lífi og deyi ekki, er þeir nálgast Hið háheilaga: Aron og synir hans skulu ganga inn og skipa hverjum sína þjónustu og sinn burð.
20 En eigi skulu þeir sjálfir ganga inn og sjá helgidóminn, jafnvel eigi eitt augnablik, svo að þeir deyi ekki."
21 Drottinn talaði við Móse og sagði:
22 "Tak þú einnig tölu Gersons sona eftir ættum þeirra, eftir kynkvíslum þeirra.
23 Skalt þú telja þá frá þrítugs aldri og þaðan af eldri til fimmtugs aldurs, alla þá sem koma til þess að gegna herþjónustu og inna af hendi störf við samfundatjaldið.
24 Þetta er þjónusta Gersóníta kynkvíslanna, það sem þeir eiga að annast og bera:
25 Þeir skulu bera dúka búðarinnar og samfundatjaldið, þakið á því og ábreiðuna af höfrungaskinnum, sem utan yfir því er, og dúkbreiðuna fyrir dyrum samfundatjaldsins.
26 Enn fremur forgarðstjöldin og dúkbreiðuna fyrir dyrum forgarðsins, sem liggur allt í kringum búðina og altarið, og stögin, sem þar til heyra, og öll áhöld við þjónustu þeirra. Allt sem við þetta þarf að gjöra, skulu þeir inna af hendi.
27 Eftir boði Arons og sona hans skal öll þjónusta sona Gersóníta fram fara, að því er snertir allt það, er þeir eiga að bera, og allt það, er þeir eiga að annast. Og þér skuluð vísa þeim á allt, sem þeir eiga að bera, með nafni.
28 Þetta er þjónusta kynkvísla Gersóníta sona við samfundatjaldið, og það, sem þeir eiga að annast, skal vera undir umsjón Ítamars, sonar Arons prests.
29 Sonu Merarí skalt þú telja eftir kynkvíslum þeirra, eftir ættum þeirra.
30 Skalt þú telja þá frá þrítugs aldri og þaðan af eldri til fimmtugs aldurs, alla þá er ganga í herþjónustu, til þess að inna af hendi störf við samfundatjaldið.
31 Og þetta er það, sem þeir eiga að sjá um að bera, allt það sem þeim ber að annast við samfundatjaldið: þiljuborð búðarinnar, slár hennar, stólpar og undirstöður,
32 enn fremur stólpar forgarðsins allt í kring og undirstöður þeirra, hælar og stög ásamt öllum áhöldum, er til þess heyra, og öllu því, er við þetta þarf að annast. Og þér skuluð vísa þeim á öll áhöld þau, er þeir eiga að bera, með nafni.
33 Þetta er þjónusta kynkvísla Merarí sona. Öll þjónusta þeirra við samfundatjaldið skal vera undir umsjón Ítamars, sonar Arons prests."
34 Móse og Aron og höfðingjar safnaðarins töldu nú sonu Kahatítanna eftir kynkvíslum þeirra og eftir ættum þeirra,
35 frá þrítugs aldri og þaðan af eldri til fimmtugs aldurs, alla þá sem ganga í herþjónustu, til þess að inna af hendi störf við samfundatjaldið.
36 Og þeir, er taldir voru af þeim eftir kynkvíslum þeirra, voru 2.750.
37 Þetta eru þeir, er taldir voru af kynkvíslum Kahatíta, allir þeir er þjónustu gegndu við samfundatjaldið og þeir Móse og Aron töldu að boði Drottins, er Móse flutti.
38 Þeir sem taldir voru af Gersons sonum eftir kynkvíslum þeirra og eftir ættum þeirra,
39 frá þrítugs aldri og þaðan af eldri til fimmtugs aldurs, allir þeir sem ganga í herþjónustu, til þess að inna af hendi störf við samfundatjaldið -
40 þeir er taldir voru af þeim eftir kynkvíslum þeirra, eftir ættum þeirra, voru 2.630.
41 Þetta eru þeir, er taldir voru af kynkvíslum Gersons sona, allir þeir er þjónustu gegndu við samfundatjaldið og þeir Móse og Aron töldu eftir boði Drottins.
42 Þeir sem taldir voru af kynkvíslum Merarí sona, eftir kynkvíslum þeirra, eftir ættum þeirra,
43 frá þrítugs aldri og þaðan af eldri til fimmtugs aldurs, allir þeir sem ganga í herþjónustu, til þess að inna af hendi störf við samfundatjaldið -
44 þeir er taldir voru af þeim eftir kynkvíslum þeirra, voru 3.200.
45 Þetta eru þeir, er taldir voru af kynkvíslum Merarí sona og þeir Móse og Aron töldu eftir boði Drottins, er Móse flutti.
46 Allir þeir er taldir voru af levítunum og þeir Móse og Aron og höfðingjar Ísraels töldu eftir kynkvíslum þeirra og eftir ættum þeirra,
47 frá þrítugs aldri og þaðan af eldri til fimmtugs aldurs, allir þeir sem komu til þess að inna af hendi þjónustustörf eða burðarstörf við samfundatjaldið -
48 þeir er taldir voru af þeim, voru 8.580.
49 Eftir boði Drottins var þeim hverjum einum undir umsjón Móse vísað á það, er þeir áttu að annast og þeir áttu að bera. Og þeir voru taldir, svo sem Drottinn hafði boðið Móse.