Kafla 30
1 Móse talaði við höfuðsmenn ættkvísla Ísraelsmanna á þessa leið: "Þetta er það, sem Drottinn hefir boðið.
2 Nú gjörir maður Drottni heit eða vinnur eið að því að leggja á sig bindindi, og skal hann þá eigi bregða orði sínu. Hann skal að öllu leyti svo gjöra sem hann hefir talað.
3 Ef kona gjörir Drottni heit og leggur á sig bindindi, meðan hún er í æsku í föðurhúsum,
4 og faðir hennar veit af heitinu eða bindindinu, er hún hefir á sig lagt, en segir ekkert við hana, þá skulu öll heit hennar standa og hvert það bindindi, er hún hefir á sig lagt.
5 En ef faðir hennar bannar henni jafnskjótt sem hann fær vitneskju um það, þá skulu öll heit hennar ógild vera og hvert það bindindi, er hún hefir á sig lagt, og Drottinn mun fyrirgefa henni, af því að faðir hennar bannaði henni.
6 En giftist hún, og heit hvíla á henni og óvarlega töluð orð, er hún hefir bundið sig með,
7 og maður hennar heyrir það og segir ekkert við hana, þá skulu heit hennar standa og hvert það bindindi, er hún hefir á sig lagt.
8 En ef maður hennar bannar henni jafnskjótt sem hann fær vitneskju um, ógildir hann heitið, sem á henni hvílir, og óvarkárnisorðin, er hún hefir bundið sig með, og Drottinn mun fyrirgefa henni.
9 Heit ekkju eða konu brottrekinnar - allt sem hún hefir bundist, er skuldbindandi fyrir hana.
10 En gjöri hún heit í húsi manns síns eða leggi á sig bindindi með eiði,
11 og maður hennar heyrir það og segir ekkert við hana og bannar henni ekki, þá skulu öll heit hennar standa og hvert það bindindi, er hún hefir á sig lagt.
12 En ef maður hennar ógildir jafnskjótt og hann fær vitneskju um, þá skal allt, sem komið hefir yfir varir hennar, ógilt vera, hvort heldur eru heit eða bindindisskuldbinding. Maður hennar hefir ógilt það, og Drottinn mun fyrirgefa henni.
13 Sérhvert heit og sérhvern skuldbindingareið um að fasta getur maður hennar staðfest eða ógilt.
14 En ef maður hennar segir alls ekkert við hana dag eftir dag, þá staðfestir hann öll heit hennar eða allar þær skuldbindingar, er á henni hvíla. Hann hefir staðfest þær með því að segja ekkert við hana, þá er hann fékk vitneskju um það.
15 En ef hann ógildir þær eftir að hann hefir fengið vitneskju um, þá tekur hann á sig misgjörð hennar."
16 Þetta eru þau ákvæði, er Drottinn bauð Móse að gilda skyldu milli manns og konu, milli föður og dóttur, meðan hún er í æsku og í föðurhúsum.