Fjórða Mósebók

Kafla: 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 14 15 16 17 18 19 20 21 22 23 24 25 26 27 28 29 30 31 32 33 34 35 36


Kafla 35

1 Drottinn talaði við Móse á Móabsheiðum við Jórdan, gegnt Jeríkó, og sagði:
2 "Bjóð þú Ísraelsmönnum, að þeir fái levítunum borgir til íbúðar af óðalseignum sínum, og til beitar skuluð þér fá þeim landið kringum borgirnar.
3 Og borgirnar skulu vera þeim til íbúðar, og beitilandið, er undir þær liggur, skal vera fyrir gripi þeirra, fénað þeirra og allar aðrar skepnur þeirra.
4 Og beitilandið hjá borgunum, er þér fáið levítunum, skal vera þúsund álnir út frá borgarveggnum hringinn í kring.
5 Og fyrir utan borgina skuluð þér mæla austurhliðina tvö þúsund álnir, suðurhliðina tvö þúsund álnir, vesturhliðina tvö þúsund álnir og norðurhliðina tvö þúsund álnir, en borgin sjálf sé í miðju. Þetta beitiland í kringum borgirnar skulu þeir fá.
6 Og að því er kemur til borganna, er þér eigið að fá levítunum, þá skuluð þér láta af hendi griðastaðina sex, til þess að þangað megi flýja menn, er víg hafa unnið, en auk þeirra skuluð þér fá þeim fjörutíu og tvær borgir.
7 Borgirnar, er þér fáið levítunum, skulu vera fjörutíu og átta borgir alls, ásamt með beitilandi því, er undir þær liggur.
8 Og að því er kemur til borganna, er þér eigið að láta af óðali Ísraelsmanna, þá skuluð þér láta mannmörgu ættkvíslirnar leggja til fleiri, en hinar fámennu færri. Hver einn skal fá levítunum af borgum sínum í réttu hlutfalli við erfðahlut þann, er hann hefir fengið."
9 Drottinn talaði við Móse og sagði:
10 "Tala þú til Ísraelsmanna og seg við þá: Þegar þér eruð komnir yfir um Jórdan inn í Kanaanland,
11 þá veljið yður haganlegar borgir. Skulu það vera yður griðastaðir, að þangað megi flýja vegendur, þeir er óviljandi hafa orðið manni að bana.
12 Borgirnar skulu vera yður hæli fyrir hefnanda, svo að vegandinn týni eigi lífi áður en hann hefir komið fyrir dóm safnaðarins.
13 En griðastaðirnir, sem þér látið af hendi, skulu vera sex.
14 Skuluð þér láta þrjár borgir hinumegin Jórdanar og þrjár borgir í Kanaanlandi. Griðastaðir skulu þær vera.
15 Skulu þessar sex borgir vera griðastaðir bæði fyrir Ísraelsmenn og dvalarmenn og hjábýlinga meðal yðar, svo að þangað megi flýja hver sá, er orðið hefir manni að bana óviljandi.
16 Hafi hann lostið hann með járntóli, svo að hann beið bana af, þá er hann manndrápari, og manndrápara skal vissulega af lífi taka.
17 Hafi hann lostið hann með stein í hendi, er getur orðið manni að bana, svo að hann beið bana af, þá er hann manndrápari; manndrápara skal vissulega af lífi taka.
18 Eða hafi hann lostið hann með trétól í hendi, er getur orðið manni að bana, svo að hann beið bana af, þá er hann manndrápari; manndrápara skal vissulega af lífi taka.
19 Hefndarmaðurinn skal drepa vegandann, hann skal drepa hann, ef hann hittir hann.
20 Og hrindi hann honum af hatri eða kasti í hann af ásetningi, svo að hann bíður bana af,
21 eða ljósti hann af fjandskap með hendinni, svo að hann bíður bana af, þá skal sá, er laust hann, vissulega líflátinn verða; hann er manndrápari. Hefndarmaðurinn skal drepa vegandann, þegar hann hittir hann.
22 En hafi hann hrundið honum óvart, en eigi af fjandskap, eða kastað í hann einhverju verkfæri, þó eigi af ásettu ráði,
23 eða hann kastar til hans steini, sem getur orðið manni að bana, án þess að sjá hann, svo að hann bíður bana af, og var þó ekki óvinur hans og ætlaði ekki að gjöra honum mein,
24 þá dæmi söfnuðurinn milli vegandans og hefndarmannsins eftir lögum þessum.
25 Og söfnuðurinn skal forða veganda undan hefndarmanninum og söfnuðurinn skal láta flytja hann aftur í griðastað þann, er hann hafði flúið í, og skal hann dvelja þar uns æðsti presturinn deyr, sem smurður hefur verið með heilagri olíu.
26 En ef vegandi fer út fyrir landamerki griðastaðar þess, er hann hefir í flúið,
27 og hefndarmaður hittir hann fyrir utan landamerki griðastaðar hans, og hefndarmaður vegur veganda, þá er hann eigi blóðsekur.
28 Því að vegandi skal dvelja í griðastað sínum uns æðsti prestur deyr, en eftir dauða æðsta prests má hann hverfa aftur til óðalslands síns.
29 Þetta skulu vera lög hjá yður frá kyni til kyns í öllum bústöðum yðar.
30 Nú drepur einhver mann, og skal þá manndráparann af lífi taka eftir framburði votta. Þó má ekki kveða upp dauðadóm yfir manni eftir framburði eins vitnis.
31 Og eigi skuluð þér taka bætur fyrir líf manndrápara, sem er dauðasekur, heldur skal hann af lífi tekinn verða.
32 Eigi skuluð þér heldur leyfa manni að leysa sig með fébótum undan því að flýja í griðastað sinn, heldur megi hverfa aftur og búa í landinu áður en prestur deyr.
33 Og þér skuluð eigi vanhelga landið, sem þér eruð í, því að blóðið vanhelgar landið, og landið fær eigi friðþæging fyrir það blóð, sem úthellt er í því, nema með blóði þess, sem úthellti því.
34 Og þú skalt ekki saurga landið, sem þér búið í, með því að ég bý í því. Ég, Drottinn, bý meðal Ísraelsmanna."