Kafla 33
1 Þessir voru áfangar Ísraelsmanna, er þeir fóru af Egyptalandi, hver hersveit fyrir sig, undir forystu þeirra Móse og Arons.
2 Móse færði í letur að boði Drottins staðina, sem þeir lögðu upp frá, eftir áföngum þeirra, og þessir voru áfangar þeirra frá einum áfangastað til annars:
3 Þeir lögðu upp frá Ramses í fyrsta mánuðinum, á fimmtánda degi hins fyrsta mánaðar. Daginn eftir páska lögðu Ísraelsmenn af stað óhikað, að Egyptum öllum ásjáandi,
4 meðan Egyptar voru að jarða alla frumburðina, er Drottinn hafði fyrir þeim deytt, og Drottinn hafði látið refsidóma ganga yfir goð þeirra.
5 Ísraelsmenn lögðu upp frá Ramses og settu búðir sínar í Súkkót.
6 Þeir lögðu upp frá Súkkót og settu búðir sínar í Etam, þar sem eyðimörkina þrýtur.
7 Þeir lögðu upp frá Etam og sneru leið sinni til Pí-Hakírót, sem er fyrir austan Baal Sefón, og settu búðir sínar fyrir austan Mígdól.
8 Þeir lögðu upp frá Pí-Hakírót og fóru þvert yfir hafið inn í eyðimörkina. Og þeir fóru þriggja daga leið í Etameyðimörk og settu búðir sínar í Mara.
9 Þeir lögðu upp frá Mara og komu til Elím. En í Elím voru tólf vatnslindir og sjötíu pálmaviðir. Þar settu þeir búðir sínar.
10 Þeir lögðu upp frá Elím og settu búðir sínar við Sefhafið.
11 Þeir lögðu upp frá Sefhafinu og settu búðir sínar í Síneyðimörk.
12 Þeir lögðu upp frá Síneyðimörk og settu búðir sínar í Dofka.
13 Þeir lögðu upp frá Dofka og settu búðir sínar í Alús.
14 Þeir lögðu upp frá Alús og settu búðir sínar í Refídím. Þar hafði lýðurinn ekki vatn að drekka.
15 Þeir lögðu upp frá Refídím og settu búðir sínar í Sínaí-eyðimörk.
16 Þeir lögðu upp frá Sínaí-eyðimörk og settu búðir sínar í Kibrót-hattava.
17 Þeir lögðu upp frá Kibrót-hattava og settu búðir sínar í Haserót.
18 Þeir lögðu upp frá Haserót og settu búðir sínar í Ritma.
19 Þeir lögðu upp frá Ritma og settu búðir sínar í Rimmón Peres.
20 Þeir lögðu upp frá Rimmón Peres og settu búðir sínar í Líbna.
21 Þeir lögðu upp frá Líbna og settu búðir sínar í Ríssa.
22 Þeir lögðu upp frá Ríssa og settu búðir sínar í Kehelata.
23 Þeir lögðu upp frá Kehelata og settu búðir sínar á Seferfjalli.
24 Þeir lögðu upp frá Seferfjalli og settu búðir sínar í Harada.
25 Þeir lögðu upp frá Harada og settu búðir sínar í Makhelót.
26 Þeir lögðu upp frá Makhelót og settu búðir sínar í Tahat.
27 Þeir lögðu upp frá Tahat og settu búðir sínar í Tera.
28 Þeir lögðu upp frá Tera og settu búðir sínar í Mitka.
29 Þeir lögðu upp frá Mitka og settu búðir sínar í Hasmóna.
30 Þeir lögðu upp frá Hasmóna og settu búðir sínar í Móserót.
31 Þeir lögðu upp frá Móserót og settu búðir sínar í Bene Jaakan.
32 Þeir lögðu upp frá Bene Jaakan og settu búðir sínar í Hór Haggiðgað.
33 Þeir lögðu upp frá Hór Haggiðgað og settu búðir sínar í Jotbata.
34 Þeir lögðu upp frá Jotbata og settu búðir sínar í Abróna.
35 Þeir lögðu upp frá Abróna og settu búðir sínar í Esjón Geber.
36 Þeir lögðu upp frá Esjón Geber og settu búðir sínar í Síneyðimörk, það er Kades.
37 Þeir lögðu upp frá Kades og settu búðir sínar á Hórfjalli, á landamærum Edómlands.
38 Og Aron prestur fór að boði Drottins upp á Hórfjall og andaðist þar á fertugasta ári eftir brottför Ísraelsmanna af Egyptalandi, í fimmta mánuðinum, á fyrsta degi mánaðarins.
39 Aron var hundrað tuttugu og þriggja ára, þegar hann andaðist á Hórfjalli.
40 Og Kanaanítinn, konungurinn í Arad, sem bjó í suðurhluta Kanaanlands, spurði komu Ísraelsmanna.
41 Þeir lögðu upp frá Hórfjalli og settu búðir sínar í Salmóna.
42 Þeir lögðu upp frá Salmóna og settu búðir sínar í Fúnón.
43 Þeir lögðu upp frá Fúnón og settu búðir sínar í Óbót.
44 Þeir lögðu upp frá Óbót og settu búðir sínar í Íje Haabarím, Móabslandi.
45 Þeir lögðu upp frá Íjím og settu búðir sínar í Díbon Gað.
46 Þeir lögðu upp frá Díbon Gað og settu búðir sínar í Almón Díblataím.
47 Þeir lögðu upp frá Almón Díblataím og settu búðir sínar í Abarímfjöllum, fyrir austan Nebó.
48 Þeir lögðu upp frá Abarímfjöllum og settu búðir sínar á Móabsheiðum við Jórdan, gegnt Jeríkó.
49 Settu þeir búðir sínar við Jórdan frá Bet Hajesímót til Abel Hasittím á Móabsheiðum.
50 Drottinn talaði við Móse á Móabsheiðum við Jórdan, gegnt Jeríkó, og sagði:
51 "Mæl þú til Ísraelsmanna og seg við þá: Þegar þér eruð komnir yfir um Jórdan inn í Kanaanland,
52 skuluð þér stökkva burt undan yður öllum íbúum landsins og eyða öllum myndasteinum þeirra, þér skuluð og eyða öllum steyptum goðalíkneskjum þeirra og leggja fórnarhæðir þeirra í eyði.
53 Og þér skuluð kasta eign yðar á landið og festa byggð í því, því að yður hefi ég gefið landið til eignar.
54 Og þér skuluð fá erfðahluti í landinu eftir hlutkesti, hver ættkvísl fyrir sig. Þeirri ættkvísl, sem mannmörg er, skuluð þér fá mikinn erfðahlut, en þeirri, sem fámenn er, skuluð þér fá lítinn erfðahlut. Þar sem hlutur hvers eins fellur, það skal verða hans, eftir kynkvíslum feðra yðar skuluð þér fá það í erfðahlut.
55 En ef þér stökkvið ekki íbúum landsins burt undan yður, þá munu þeir af þeim, er þér skiljið eftir, verða þyrnar í augum yðar og broddar í síðum yðar, og þeir munu veita yður þungar búsifjar í landinu, sem þér búið í,
56 og þá mun svo fara, að ég mun gjöra svo við yður sem ég hafði fyrirhugað að gjöra við þá."