Kafla 17
1 Andi minn er bugaður, dagar mínir þrotnir, gröfin bíður mín.
2 Vissulega eru þeir enn að gjöra gys að mér! Auga mitt verður að horfa upp á móðganir þeirra!
3 Set veð, gakk í ábyrgð fyrir mig hjá þér, Guð, hver mun annars taka í hönd mér?
4 Því að hjörtum þeirra hefir þú varnað vits, fyrir því munt þú ekki láta þá sigri hrósa.
5 Hver sem með svikum framselur vini sína að herfangi, - augu barna hans munu daprast.
6 Hann hefir gjört mig að orðskviði meðal manna, og ég verð að láta hrækja í andlit mitt.
7 Fyrir því dapraðist auga mitt af harmi, og limir mínir eru allir orðnir sem skuggi.
8 Réttvísir menn skelfast yfir því, og hinn saklausi fárast yfir hinum óguðlega.
9 En hinn réttláti heldur fast við sína leið, og sá sem hefir hreinar hendur, verður enn styrkari.
10 En komið þér allir hingað aftur, og ég mun ekki finna neinn vitran mann meðal yðar.
11 Dagar mínir eru liðnir, fyrirætlanir mínar sundurtættar, - hin dýrasta eign hjarta míns.
12 Nóttina gjöra þeir að degi, ljósið á að vera nær mér en myrkrið.
13 Þegar ég vonast eftir að dánarheimar verði híbýli mitt, bý mér hvílu í myrkrinu,
14 þegar ég kalla gröfina "föður minn", ormana "móður mína og systur" -
15 hvar er þá von mín, já, von mín - hver eygir hana?
16 Að slagbröndum Heljar stígur hún niður, þá er ég um leið fæ hvíld í moldu.