Kafla 15
1 Þá svaraði Elífas frá Teman og sagði:
2 Skyldi vitur maður svara með vindkenndri visku og fylla brjóst sitt austanstormi -
3 sanna mál sitt með orðum, sem ekkert gagna, og ræðum, sem engu fá áorkað?
4 Auk þess rífur þú niður guðsóttann og veikir lotninguna, sem Guði ber.
5 Því að misgjörð þín leggur þér orð í munn og þú velur þér lævísra tungu.
6 Þinn eigin munnur sakfellir þig, ekki ég, og varir þínar vitna í gegn þér.
7 Fæddist þú fyrstur manna og ert þú í heiminn borinn fyrr en hæðirnar?
8 Hefir þú hlustað í ráði Guðs og hrifsað til þín spekina?
9 Hvað veist þú, er vér eigi vissum, hvað skilur þú, er oss væri ókunnugt?
10 Til eru og öldungar, gráhærðir menn, vor á meðal, auðgari að ævidögum en faðir þinn.
11 Er huggun Guðs þér lítils virði og mildileg orðin sem þú heyrir?
12 Hvers vegna hrífur gremjan þig og hví ranghvolfast augu þín,
13 er þú snýr reiði þinni gegn Guði og lætur þér slík orð um munn fara?
14 Hvað er maðurinn, að hann geti verið hreinn, og sá verið réttlátur, sem af konu er fæddur?
15 Sjá, sínum heilögu treystir Hann ekki, og himinninn er ekki hreinn í augum hans,
16 hvað þá hinn andstyggilegi og spillti, maðurinn, sem drekkur ranglætið eins og vatn.
17 Ég vil fræða þig, heyr þú mig, og það sem ég hefi séð, frá því vil ég segja,
18 því er vitringarnir kunngjörðu - og duldu ekki - svo sem arfsögn frá feðrum sínum,
19 en þeim einum var landið gefið, og enginn útlendingur hafði enn farið um meðal þeirra.
20 Alla ævi sína kvelst hinn óguðlegi og öll þau ár, sem geymd eru ofbeldismanninum.
21 Skelfingarhljóð óma í eyrum honum, á friðartímum ræðst eyðandinn á hann.
22 Hann trúir því ekki, að hann komist út úr myrkrinu, og hann er kjörinn undir sverðið.
23 Hann reikar um til þess að leita sér brauðs - hvar er það? - hann veit að ógæfudagurinn bíður hans.
24 Neyð og angist skelfa hann, hún ber hann ofurliði eins og konungur, sem búinn er til atlögu,
25 af því hann útrétti hönd sína gegn Guði og reis þrjóskur í móti hinum Almáttka,
26 rann í móti honum illvígur undir þykkum bungum skjalda sinna.
27 Hann þakti andlit sitt spiki og safnaði fitu á lendar sér,
28 settist að í eyddum borgum, í húsum, er enginn átti í að búa og ákveðið var, að verða skyldu að rústum.
29 Hann verður ekki ríkur, og eigur hans haldast ekki við, og kornöx hans svigna ekki til jarðar.
30 Hann kemst eigi undan myrkrinu, frjóanga hans mun loginn svíða, og fyrir reiðiblæstri hans ferst hann.
31 Hann skyldi ekki reiða sig á hégóma; hann villist, því að hégómi verður umbun hans.
32 Það rætist fyrir skapadægur hans, og pálmagrein hans grænkar eigi.
33 Hann hristir af sér súr berin eins og vínviðurinn og varpar af sér blómunum eins og olíutréð.
34 Því að sveit hinna óguðlegu er ófrjó, og eldur eyðir tjöldum mútugjafanna.
35 Þeir ganga þungaðir með mæðu og ala ógæfu, og kviður þeirra undirbýr svik.