Esekíel

Kafla: 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 14 15 16 17 18 19 20 21 22 23 24 25 26 27 28 29 30 31 32 33 34 35 36 37 38 39 40 41 42 43 44 45 46 47 48


Kafla 6

1 Orð Drottins kom til mín svohljóðandi:
2 "Þú mannsson, snú þú augliti þínu gegn Ísraels fjöllum og spá í móti þeim
3 og seg: Þér Ísraels fjöll, heyrið orð Drottins Guðs! Svo talar Drottinn Guð til fjallanna og hæðanna, til hvammanna og dalanna: Sjá, ég læt sverðið koma yfir yður og eyði fórnarhæðum yðar.
4 Ölturu yðar skulu í eyði lögð verða og sólsúlur yðar brotnar, og vegnum mönnum yðar mun ég kasta niður fyrir framan skurðgoð yðar,
5 og ég mun varpa hræjum Ísraelsmanna fyrir skurðgoð þeirra og dreifa beinum yðar umhverfis ölturu yðar.
6 Svo langt sem byggð yðar nær, skulu borgirnar í eyði liggja og fórnarhæðirnar standa gjöreyddar, til þess að ölturu yðar séu niður brotin og í rústum, skurðgoð yðar sundurbrotin og að engu gjörð, sólsúlur yðar mölvaðar og handaverk yðar afmáð.
7 Og menn skulu vegnir í val falla yðar á meðal, til þess að þér viðurkennið, að ég er Drottinn.
8 En ég læt nokkra yðar komast undan sverðinu til annarra þjóða, og þegar yður hefur verið dreift um löndin,
9 munu þeir, sem undan komust, minnast mín meðal þjóðanna, þangað sem þeir voru herleiddir, þegar ég hefi beygt þeirra blótfíknu hjörtu, sem gjörðust mér fráhverf, og þeirra blótfúsu augu, sem mæna eftir skurðgoðunum, og þá mun þeim bjóða við sjálfum sér vegna illverka þeirra, er þeir hafa framið með öllum svívirðingum sínum.
10 Og þá munu þeir við kannast, að ég, Drottinn, hefi ekki talað þar um neinum hégómaorðum, að láta þá rata í þessa ógæfu."
11 Svo segir Drottinn Guð: "Slá þú saman höndum þínum, stappa niður fæti þínum og kalla ,vei' yfir öllum svívirðingum Ísraels húss, því að þeir munu falla fyrir sverði, hungri og drepsótt.
12 Sá sem fjær er, skal af drepsótt deyja, og sá sem nær er, fyrir sverði falla, og sá sem eftir er og bjargast hefir, skal deyja af hungri, og ég vil úthella allri heift minni yfir þá.
13 Og þér skuluð viðurkenna, að ég er Drottinn, þegar valkestirnir liggja mitt á meðal skurðgoðanna, kringum ölturu þeirra á hverri hárri hæð, á öllum fjallhnjúkum, undir hverju grænu tré og undir hverri laufgaðri eik, þar er þeir færðu öllum skurðgoðum sínum þægilegan ilm.
14 Og ég vil rétta út hönd mína í móti þeim og gjöra landið að auðn og öræfum frá eyðimörkinni allt norður að Ribla, alls staðar þar sem þeir búa, og þeir skulu viðurkenna, að ég er Drottinn."