Esekíel

Kafla: 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 14 15 16 17 18 19 20 21 22 23 24 25 26 27 28 29 30 31 32 33 34 35 36 37 38 39 40 41 42 43 44 45 46 47 48


Kafla 35

1 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:
2 "Mannsson, snú þér gegn Seír-fjalllendi og spá gegn því
3 og seg við það: Svo segir Drottinn Guð: Sjá, ég skal finna þig, Seír-fjalllendi, og ég skal rétta hönd mína út í móti þér og gjöra þig að auðn og öræfum.
4 Borgir þínar gjöri ég að rústum, og þú skalt sjálft verða að auðn, svo að þú viðurkennir, að ég er Drottinn.
5 Af því að þú bjóst yfir eilífum fjandskap og seldir Ísraelsmenn undir sverðseggjar á ógæfutíma þeirra, þá er tími endasektarinnar rann upp,
6 fyrir því, svo sannarlega sem ég lifi, - segir Drottinn Guð - blóðskuld hefir þú bakað þér, og blóð skal ofsækja þig.
7 Og ég gjöri Seír-fjalllendi að auðn og öræfum og læt þar alla umferð af leggjast.
8 Og ég fylli fjöll þess vegnum mönnum. Á hæðum þínum, í dölum þínum og í öllum hvömmum þínum munu vopnbitnir menn falla.
9 Og ég vil gjöra þig að ævinlegri auðn, og borgir þínar skulu vera óbyggðar, til þess að þér viðurkennið, að ég er Drottinn.
10 Af því að þú sagðir: ,Báðar þjóðirnar og bæði löndin skulu vera mín, og vér skulum taka þau til eignar,' enda þótt Drottinn væri þar,
11 fyrir því, svo sannarlega sem ég lifi, - segir Drottinn Guð - mun ég fara með þig samkvæmt þeirri ástríðufullu reiði, er þú hefir á þeim sýnt vegna haturs þíns, og ég mun láta þig kenna á mér, þá er ég dæmi þig,
12 til þess að þú viðurkennir, að ég er Drottinn. Ég hefi heyrt öll lastmæli þín, þau er þú hefir talað gegn Ísraels fjöllum, er þú sagðir: ,Þau eru í eyði lögð! Oss eru þau gefin til afneyslu!'
13 Og þér töluðuð stóryrði í gegn mér og höfðuð orðmælgi við mig, ég hefi heyrt það.
14 Svo segir Drottinn Guð: Eins og þú fagnaðir yfir landi mínu, að það lá í eyði, svo mun ég láta hið sama fram við þig koma.
15 Eins og þú fagnaðir yfir arfleifð Ísraels húss, að hún var í eyði lögð, svo mun ég við þig gjöra. Að auðn skalt þú verða, Seír-fjalllendi, og allt Edómland, eins og það er sig til, til þess að þeir viðurkenni, að ég er Drottinn.