Kafla 42
1 Þá komu allir hershöfðingjarnir og meðal þeirra Jóhanan Kareason og Asarja Hósajason og allur lýðurinn, bæði smáir og stórir,
2 og sögðu við Jeremía spámann: "Veit oss auðmjúka bæn vora og bið þú til Drottins, Guðs þíns, fyrir oss, fyrir öllum þessum leifum, sem vér erum, því að fáir erum vér eftir orðnir af mörgum, eins og þú sjálfur sér á oss.
3 Bið þú þess, að Drottinn, Guð þinn, gjöri oss kunnan þann veg, er vér eigum að fara, og það, sem vér eigum að gjöra."
4 En Jeremía spámaður sagði við þá: "Gott og vel! Ég skal biðja til Drottins, Guðs yðar, samkvæmt tilmælum yðar, og allt það, er Drottinn svarar yður, það skal ég segja yður. Engu skal ég leyna yður."
5 Og þeir sögðu við Jeremía: "Drottinn sé sannur og áreiðanlegur vottur gegn oss! Vér munum með öllu fara eftir þeim orðum, er Drottinn, Guð þinn, sendir þig með til vor,
6 hvort sem það verður gott eða illt. Skipun Drottins, Guðs vors, sem vér sendum þig til, viljum vér hlýða, til þess að oss megi vel vegna, er vér hlýðum skipun Drottins, Guðs vors."
7 Og að tíu dögum liðnum kom orð Drottins til Jeremía,
8 og hann kallaði Jóhanan Kareason og alla hershöfðingjana saman, sem með honum voru, og allan lýðinn, bæði smáa og stóra,
9 og sagði við þá: Svo segir Drottinn, Ísraels Guð, er þér senduð mig til, að ég bæri fram fyrir hann auðmjúka bæn yðar:
10 Ef þér búið kyrrir í þessu landi, vil ég uppbyggja yður og ekki rífa niður, og ég vil gróðursetja yður og ekki uppræta, því að mig iðrar hins illa, er ég hefi gjört yður.
11 Óttist ekki Babelkonung, sem þér nú óttist, óttist hann ekki - segir Drottinn - því að ég er með yður til þess að hjálpa yður og til þess að frelsa yður undan hans valdi.
12 Og ég vil veita yður þá miskunn, að hann miskunni yður og láti yður snúa aftur heim í land yðar.
13 En ef þér segið: "Vér viljum eigi búa kyrrir í þessu landi!" og hlýðið eigi skipun Drottins, Guðs yðar,
14 en segið: "Nei, heldur viljum vér fara til Egyptalands, svo að vér þurfum ekki að sjá stríð, né heyra lúðurþyt, né hungra eftir brauði, og þar viljum vér setjast að!" -
15 þá heyrið nú þess vegna orð Drottins, þér leifar Júdamanna: Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Ef þér eruð alvarlega að hugsa um að fara til Egyptalands og komist þangað, til þess að dveljast þar sem flóttamenn,
16 þá skal sverðið, sem þér nú óttist, ná yður þar, í Egyptalandi, og hungrið, sem þér nú hræðist, skal elta yður til Egyptalands, og þar skuluð þér deyja.
17 Og allir þeir menn, sem eru að hugsa um að fara til Egyptalands, til þess að dveljast þar sem flóttamenn, skulu deyja fyrir sverði og af hungri og drepsótt, og enginn þeirra skal sleppa við né komast undan ógæfu þeirri, er ég leiði yfir þá.
18 Því að svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Eins og reiði minni og heift var úthellt yfir Jerúsalembúa, svo skal og heift minni úthellt verða yfir yður, er þér farið til Egyptalands, og þér skuluð verða að formæling, að skelfing, að bölbænarformála og að háðung, og eigi framar sjá þennan stað.
19 Drottinn hefir svo til yðar talað, þér leifar Júdamanna: Farið eigi til Egyptalands! Vita skuluð þér, að nú hefi ég varað yður við.
20 Því að þér dróguð sjálfa yður á tálar, er þér senduð mig til Drottins, Guðs yðar, og sögðuð: "Bið til Drottins, Guðs vors, fyrir oss og seg oss nákvæmlega svo frá sem Drottinn, Guð vor, mælir, og vér skulum gjöra það!"
21 Nú hefi ég sagt yður frá því í dag, en þér hafið ekki hlýtt skipun Drottins, Guðs yðar, viðvíkjandi öllu því, er hann hefir sent mig með til yðar.
22 Og vita skuluð þér nú, að þér munuð deyja fyrir sverði, af hungri og drepsótt á þeim stað, þangað sem yður lystir að fara, til þess að dveljast þar sem flóttamenn.