Kafla 28
1 Þetta ár - í upphafi ríkisstjórnar Sedekía konungs í Júda, fjórða árið, í fimmta mánuðinum - sagði Hananja spámaður Assúrsson frá Gíbeon við mig í musteri Drottins í viðurvist prestanna og alls lýðsins:
2 "Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Ég brýt sundur ok Babelkonungs!
3 Áður en tvö ár eru liðin, flyt ég aftur á þennan stað öll áhöldin úr musteri Drottins, þau er Nebúkadnesar Babelkonungur tók á þessum stað og flutti til Babýlon.
4 Jekonja Jójakímsson, Júdakonung, og alla hina herleiddu úr Júda, þá er komnir eru til Babýlon, flyt ég og aftur á þennan stað - segir Drottinn - því að ég brýt sundur ok Babelkonungs!"
5 Þá talaði Jeremía spámaður til Hananja spámanns í viðurvist prestanna og alls lýðsins, sem stóð í musteri Drottins,
6 og Jeremía spámaður mælti: "Verði svo! Drottinn gjöri það! Drottinn láti orð þín, er þú hefir spáð, rætast, svo að hann flytji aftur frá Babýlon á þennan stað áhöldin úr musteri Drottins og alla hina herleiddu!
7 En heyr þessi orð, sem ég kunngjöri þér og öllum lýðnum:
8 Þeir spámenn, sem komið hafa fram á undan mér og á undan þér frá alda öðli, þeir spáðu voldugum löndum og stórum konungsríkjum ófriði, óhamingju og drepsótt.
9 En sá spámaður, sem spáir heill, - ef orð hans rætast, þá þekkist á því sá spámaður, er Drottinn hefir sannarlega sent."
10 Þá tók Hananja spámaður okið af hálsi Jeremía spámanns og braut það sundur.
11 Síðan mælti Hananja í viðurvist alls lýðsins á þessa leið: "Svo segir Drottinn: Eins skal ég sundurbrjóta ok Nebúkadnesars Babelkonungs áður tvö ár eru liðin af hálsi allra þjóða!" En Jeremía spámaður fór leiðar sinnar.
12 En orð Drottins kom til Jeremía, eftir að Hananja spámaður hafði sundurbrotið okið af hálsi Jeremía spámanns:
13 Far og seg við Hananja: Svo segir Drottinn: Tré-ok hefir þú sundurbrotið, en ég vil í þess stað gjöra járn-ok!
14 Því að svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Járnok legg ég á háls allra þessara þjóða, til þess að þær verði þegnskyldar Nebúkadnesar Babelkonungi og þjóni honum, já, jafnvel dýr merkurinnar gef ég honum.
15 Þá sagði Jeremía spámaður við Hananja spámann: "Heyr þú, Hananja! Drottinn hefir ekki sent þig, og þó hefir þú ginnt lýð þennan til að reiða sig á lygar!
16 Fyrir því segir Drottinn svo: Sjá, ég kippi þér burt af jörðinni. Á þessu ári skalt þú deyja, því að þú hefir prédikað fráhvarf frá Drottni."
17 Og Hananja spámaður dó þetta ár, í sjöunda mánuðinum.