Orðskviðirnir

Kafla: 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 14 15 16 17 18 19 20 21 22 23 24 25 26 27 28 29 30 31


Kafla 27

1 Vertu ekki hróðugur af morgundeginum, því að þú veist ekki, hvað dagurinn ber í skauti sínu.
2 Lát aðra hrósa þér og ekki þinn eigin munn, óviðkomandi menn, en ekki þínar eigin varir.
3 Steinar eru þungir, og sandurinn sígur í, en gremja afglapans er þyngri en hvort tveggja.
4 Heiftin er grimm, og reiðin er svæsin, en hver fær staðist öfundina?
5 Betri er opinber ofanígjöf en elska sem leynt er.
6 Vel meint eru vinar sárin, en viðbjóðslegir kossar hatursmannsins.
7 Saddur maður treður hunangsseim undir fótum, en hungruðum manni þykir allt beiskt sætt.
8 Eins og fugl, sem floginn er burt úr hreiðri sínu, svo er maður, sem flúinn er burt af heimili sínu.
9 Ilmolía og reykelsi gleðja hjartað, en indælli er vinur en ilmandi viður.
10 Yfirgef eigi vin þinn né vin föður þíns og gakk eigi í hús bróður þíns á óheilladegi þínum. Betri er nábúi í nánd en bróðir í fjarlægð.
11 Vertu vitur, sonur minn, og gleð hjarta mitt, svo að ég geti svarað þeim orði, sem smána mig.
12 Vitur maður sér ógæfuna og felur sig, en einfeldningarnir halda áfram og fá að kenna á því.
13 Tak þú skikkjuna af þeim manni, sem hefir gengið í ábyrgð fyrir ókunnugan, tak veð af þeim manni, sem hefir gengið í ábyrgð fyrir útlending.
14 Hver sem blessar náunga sinn snemma morguns með hárri raustu, það skal metið við hann sem formæling.
15 Sífelldur þakleki í rigningatíð og þrasgjörn kona - er hvað öðru líkt.
16 Sá er hana stöðvaði, gæti stöðvað vindinn og haldið olíu í hægri hendi sinni.
17 Járn brýnir járn, og maður brýnir mann.
18 Sá sem gætir fíkjutrés, mun eta ávöxt þess, og sá sem þjónar húsbónda sínum með virktum, mun heiður hljóta.
19 Eins og andlit horfir við andliti í vatni, svo er hjarta eins manns gagnvart öðrum.
20 Dánarheimar og undirdjúpin eru óseðjandi, svo eru og augu mannsins óseðjandi.
21 Deiglan er fyrir silfrið og bræðsluofninn fyrir gullið, og maðurinn er dæmdur eftir orðstír hans.
22 Þótt þú steyttir afglapann í mortéli með stauti innan um grjón, þá mundi fíflska hans ekki við hann skilja.
23 Haf nákvæmar gætur á útliti sauða þinna og veit hjörðunum athygli þína.
24 Því að auður varir ekki eilíflega, né heldur kóróna frá kyni til kyns.
25 Sé heyið komið undan og grængresi komið í ljós, og hafi jurtir fjallanna verið hirtar,
26 þá átt þú lömb þér til klæðnaðar og geithafra til þess að kaupa fyrir akur
27 og nóga geitamjólk þér til fæðslu, til fæðslu heimili þínu, og til viðurlífis þernum þínum.