Esrabók

Kafla: 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10


Kafla 7

1 Eftir þessa atburði, á ríkisárum Artahsasta Persakonungs, fór Esra Serajason, Asarjasonar, Hilkíasonar,
2 Sallúmssonar, Sadókssonar, Ahítúbssonar,
3 Amarjasonar, Asarjasonar, Merajótssonar,
4 Serahjasonar, Ússísonar, Búkkísonar,
5 Abísúasonar, Pínehassonar, Eleasarssonar, Aronssonar æðsta prests, -
6 þessi Esra fór heim frá Babýlon. En hann var fræðimaður, vel að sér í Móselögum, er Drottinn, Ísraels Guð, hefir gefið, og konungur veitti honum allar bænir hans, með því að hönd Drottins, Guðs hans, var yfir honum.
7 Og nokkrir af Ísraelsmönnum og af prestunum, levítunum, söngvurunum, hliðvörðunum og musterisþjónunum fóru með honum til Jerúsalem á sjöunda ríkisári Artahsasta konungs.
8 Og hann kom til Jerúsalem í fimmta mánuðinum, það var á sjöunda ríkisári konungs.
9 Því að hinn fyrsta dag hins fyrsta mánaðar bjó hann ferð sína frá Babýlon, og hinn fyrsta dag hins fimmta mánaðar kom hann til Jerúsalem, með því að Guð hans hélt náðarsamlega hönd sinni yfir honum.
10 Því að Esra hafði snúið huga sínum að því að rannsaka lögmál Drottins og breyta eftir því og að kenna lög og rétt í Ísrael.
11 Þetta er afrit af bréfinu, sem Artahsasta konungur fékk Esra presti, fræðimanninum, sem fróður var í ákvæðum boðorða Drottins og í lögum hans, þeim er hann hafði sett Ísrael:
12 "Artahsasta, konungur konunganna, til Esra prests hins fróða í lögmáli Guðs himnanna, og svo framvegis.
13 Ég hefi gefið út skipun um, að hver sá í ríki mínu af Ísraelslýð og af prestum hans og levítum, sem vill fara til Jerúsalem, skuli fara með þér,
14 þar eð þú ert sendur af konungi og sjö ráðgjöfum hans, til þess að gjöra rannsóknir um Júda og Jerúsalem, samkvæmt lögmáli Guðs þíns, sem þú hefir í höndum,
15 og til að flytja silfur það og gull, sem konungur og ráðgjafar hans sjálfviljuglega hafa gefið Ísraels Guði, þeim er bústað á í Jerúsalem,
16 svo og allt það silfur og gull, er þú fær í öllu Babelskattlandi, ásamt sjálfviljagjöfum lýðsins og prestanna, sem og gefa sjálfviljuglega til musteris Guðs síns í Jerúsalem.
17 Fyrir því skalt þú með allri kostgæfni kaupa fyrir fé þetta naut, hrúta, lömb og matfórnir og dreypifórnir þær, er þar til heyra, og fram bera þær á altarinu í húsi Guðs yðar í Jerúsalem.
18 Og það sem þér og bræðrum þínum þóknast að gjöra við afganginn af silfrinu og gullinu, það skuluð þér gjöra samkvæmt vilja Guðs yðar.
19 En áhöldin, sem þér munu verða fengin til guðsþjónustunnar í húsi Guðs þíns, þeim skalt þú skila óskertum frammi fyrir Guði í Jerúsalem.
20 Og annað það, er með þarf við hús Guðs þíns og þú kannt að þurfa að greiða, það skalt þú greiða úr féhirslu konungs.
21 Og ég, Artahsasta konungur, hefi gefið út skipun til allra féhirða í héraðinu hinumegin Fljóts: Allt það, er Esra prestur, sá er fróður er í lögmáli Guðs himnanna, biður yður um, það skal kostgæfilega í té látið,
22 allt að hundrað talentur silfurs og allt að hundrað kór af hveiti og allt að hundrað bat af víni og allt að hundrað bat af olífuolíu og salt ómælt.
23 Allt það, sem þörf er á samkvæmt skipun Guðs himnanna, skal kostgæfilega gjört fyrir hús Guðs himnanna, til þess að reiði komi ekki yfir ríki konungs og sona hans.
24 En yður gefst til vitundar, að engum er heimilt að leggja skatt, toll eða vegagjald á nokkurn prest eða levíta, söngvara, dyravörð, musterisþjón eða starfsmann við þetta musteri Guðs.
25 En þú, Esra, skipa þú samkvæmt visku Guðs þíns, þeirri er þú hefir í hendi þér, dómendur og stjórnendur, til þess að þeir dæmi mál manna hjá öllum lýð í héraðinu hinumegin Fljóts - hjá þeim er þekkja lög Guðs þíns. Og þeim, er ekki þekkir þau, honum skuluð þér kenna.
26 En hver sá, er eigi breytir eftir lögmáli Guðs þíns og lögmáli konungsins, á honum skal dómur vendilega framkvæmdur verða, hvort heldur er til dauða eða til útlegðar eða til fjárútláta eða til fangelsisvistar."
27 Lofaður sé Drottinn, Guð feðra vorra, sem blásið hefir konunginum slíku í brjóst, að gjöra musteri Drottins í Jerúsalem dýrlegt,
28 og hneigt til mín hylli konungs og ráðgjafa hans og allra hinna voldugu höfðingja konungs! Og ég tók í mig hug, með því að hönd Drottins, Guðs míns, hvíldi yfir mér, og safnaði saman höfðingjum Ísraels til þess að fara heim með mér.