Kafla 1
1 Á fyrsta ríkisári Kýrusar Persakonungs blés Drottinn honum því í brjóst - til þess að orð Drottins fyrir munn Jeremía rættust - að láta boð út ganga um allt ríki sitt, og það í konungsbréfi, á þessa leið:
2 "Svo segir Kýrus Persakonungur: Öll konungsríki jarðarinnar hefir Drottinn, Guð himnanna, gefið mér, og hann hefir skipað mér að reisa sér musteri í Jerúsalem í Júda.
3 Hver sá meðal yðar, sem tilheyrir þjóð hans, með honum sé Guð hans, og hann fari heim til Jerúsalem í Júda og reisi musteri Drottins, Ísraels Guðs. Hann er sá Guð, sem býr í Jerúsalem.
4 Og hvern þann, sem enn er eftir, á sérhverjum þeim stað þar sem hann dvelst sem útlendingur, hann skulu menn á þeim stað styrkja með silfri og gulli og lausafé og kvikfénaði, auk sjálfviljagjafa til Guðs musteris í Jerúsalem."
5 Þá tóku ætthöfðingjar Júda og Benjamíns og prestarnir og levítarnir sig upp - allir þeir, er Guð hafði blásið því í brjóst að fara og reisa musteri Drottins í Jerúsalem.
6 Og allir nágrannar þeirra hjálpuðu þeim um áhöld úr silfri, um gull, um lausafé og um kvikfénað og um gersemar, auk alls þess, er menn gáfu sjálfviljuglega.
7 Kýrus konungur lét af hendi kerin úr musteri Drottins, þau er Nebúkadnesar hafði flutt burt frá Jerúsalem og sett í musteri guðs síns.
8 Kýrus Persakonungur fékk þau í hendur Mítredat féhirði, og hann taldi þau út í hendur Sesbasar, höfðingja Júdaættkvíslar.
9 En talan á þeim var þessi: 30 gullskálar, 1.000 silfurskálar, 29 pönnur,
10 30 könnur af gulli, silfurkönnur minni háttar: 410, önnur ker 1.000 -
11 öll kerin af gulli og silfri til samans 5.400. Allt þetta flutti Sesbasar með sér, þá er hinir herleiddu voru fluttir frá Babýlon heim til Jerúsalem.