Síðari kroníkubók

Kafla: 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 14 15 16 17 18 19 20 21 22 23 24 25 26 27 28 29 30 31 32 33 34 35 36


Kafla 6

1 Þá mælti Salómon: Drottinn hefir sagt, að hann vilji búa í dimmu.
2 Nú hefi ég byggt hús þér til bústaðar og aðseturstað handa þér um eilífð.
3 Þá sneri konungur sér við og blessaði allan Ísraelssöfnuð, en allur Ísraelssöfnuður stóð.
4 Og hann mælti: "Lofaður sé Drottinn, Ísraels Guð, er talaði með munni sínum við Davíð föður minn og efndi með hendi sinni það, er hann lofaði, þá er hann sagði:
5 ,Frá því er ég leiddi lýð minn út af Egyptalandi, hefi ég ekki útvalið neina borg af öllum ættkvíslum Ísraels til þess að byggja þar hús, þar sem nafn mitt skyldi búa, hefi og eigi útvalið neinn mann til þess að vera höfðingi yfir lýð mínum Ísrael.
6 En nú hefi ég útvalið Jerúsalem, til þess að nafn mitt búi þar, og ég útvaldi Davíð, til þess að hann skyldi ríkja yfir lýð mínum Ísrael.'
7 Og Davíð faðir minn hafði í hyggju að reisa hús nafni Drottins, Ísraels Guðs,
8 en Drottinn sagði við Davíð föður minn: ,Vel gjörðir þú, er þú ásettir þér að reisa hús nafni mínu.
9 En eigi skalt þú reisa húsið, heldur skal sonur þinn, sá er út gengur af lendum þínum, reisa hús nafni mínu.'
10 Og Drottinn hefir efnt orð sín, þau er hann talaði, því að ég kom í stað Davíðs föður míns og settist í hásæti Ísraels, svo sem Drottinn hafði heitið, og hefi nú reist hús nafni Drottins, Ísraels Guðs.
11 Og þar setti ég örkina, sem í er sáttmál Drottins, það er hann gjörði við Ísraelsmenn."
12 Síðan gekk hann fyrir altari Drottins í viðurvist alls Ísraelssafnaðar og fórnaði höndum -
13 því að Salómon hafði gjöra látið pall af eiri og sett í miðjan forgarðinn. Var hann fimm álnir á lengd, fimm álnir á breidd og þrjár álnir á hæð. Sté hann upp á hann, féll á kné í viðurvist alls Ísraelssafnaðar og fórnaði höndum til himins
14 og mælti: "Drottinn, Guð Ísraels, enginn guð er sem þú á himni eða jörðu, þú sem heldur sáttmálann og miskunnsemina við þjóna þína, þá er ganga fyrir augliti þínu af öllu hjarta sínu,
15 þú sem hefir haldið það við þjón þinn, Davíð föður minn, er þú hést honum. Þú talaðir það með munni þínum og efndir það með hendi þinni, eins og nú er fram komið.
16 Efn nú, Drottinn, Ísraels Guð, við þjón þinn Davíð, föður minn, það er þú hést honum, þá er þú sagðir: ,Eigi skal þig vanta eftirmann frammi fyrir mér, er sitji í hásæti Ísraels, ef synir þínir aðeins varðveita vegu sína með því að ganga eftir lögmáli mínu, eins og þú hefir gengið fyrir augliti mínu.'
17 Og lát nú, Drottinn, Ísraels Guð, rætast orð þín, þau er þú talaðir við Davíð þjón þinn.
18 En mun Guð í sannleika búa með mönnum á jörðu? Sjá, himinninn og himnanna himnar taka þig ekki, hve miklu síður þá þetta hús, sem ég hefi reist.
19 En snú þér, Drottinn, Guð minn, að bæn þjóns þíns og grátbeiðni hans, að þú heyrir ákall það og bæn, er þjónn þinn ber fram fyrir þig:
20 að augu þín séu opin fyrir þessu húsi dag og nótt, yfir þeim stað, er þú hefir um sagt, að þar skulir þú láta nafn þitt búa, - að þú heyrir bæn þá, er þjónn þinn biður á þessum stað.
21 Og heyr þú grátbeiðni þjóns þíns og lýðs þíns Ísraels, er þeir bera fram á þessum stað, já, heyr þú hana frá aðseturstað þínum, frá himnum, og fyrirgef, er þú heyrir.
22 Ef einhver gjörir á hluta náunga síns, og hann verður eiðs krafinn og látinn sverja, og hann kemur og vinnur eiðinn fyrir altari þínu í húsi þessu,
23 þá heyr þú það frá himnum, lát til þín taka og dæm þjóna þína, með því að sakfella hinn seka og láta honum gjörðir hans í koll koma, en sýkna hinn saklausa og umbuna honum eftir réttlæti hans.
24 Ef lýður þinn Ísrael bíður ósigur fyrir óvinum sínum, af því að þeir hafa syndgað á móti þér, og þeir snúa sér og játa þitt nafn og biðja og grátbæna þig í þessu húsi,
25 þá heyr þú það frá himnum og fyrirgef synd lýðs þíns Ísraels og leið þá aftur heim til þess lands, er þú gafst þeim og feðrum þeirra.
26 Ef himinninn er byrgður, svo að eigi nær að rigna, af því að þeir hafa syndgað í móti þér, og þeir biðja á þessum stað og játa nafn þitt og snúa sér frá syndum sínum, af því að þú auðmýkir þá,
27 þá heyr þú það á himnum og fyrirgef synd þjóna þinna og lýðs þíns Ísraels, er þú kennir þeim þann góða veg, sem þeir eiga að ganga, og gef regn yfir land þitt, það er þú hefir gefið þínum lýð til eignar.
28 Ef hallæri verður í landinu, ef drepsótt kemur eða korndrep eða gulnan, engisprettur eða jarðvargar, ef óvinir hans þrengja að honum í einhverri af borgum hans, eða einhver plága eða sótt -
29 ef þá einhver maður af öllum lýð þínum Ísrael ber fram einhverja bæn eða grátbeiðni, af því að hann finnur til angurs og sársauka og fórnar höndum til þessa húss,
30 þá heyr þú það frá himnum, aðseturstað þínum, og fyrirgef og gef sérhverjum eins og hann hefir til unnið og svo sem þú þekkir hjarta hans - því að þú einn þekkir hjörtu manna -
31 til þess að þeir óttist þig og gangi á vegum þínum alla þá stund, er þeir lifa í landinu, er þú gafst feðrum vorum.
32 Ef útlendingur, sem eigi er af lýð þínum Ísrael, en kemur úr fjarlægu landi sakir þíns mikla nafns, þinnar sterku handar og þíns útrétta armleggs - ef þeir koma hingað og biðja frammi fyrir þessu húsi,
33 þá heyr þú það frá himnum, aðseturstað þínum, og gjör allt það, sem útlendingurinn biður þig um, til þess að öllum þjóðum jarðarinnar verði kunnugt nafn þitt og þær óttist þig eins og lýður þinn Ísrael, og til þess að þær megi vita, að hús þetta, sem ég hefi byggt, er kennt við þig.
34 Ef lýður þinn fer í ófrið í móti óvinum sínum, þangað sem þú sendir þá, og þeir biðja til þín og snúa sér í áttina til borgar þessarar, sem þú hefir útvalið, og hússins, sem ég hefi reist þínu nafni,
35 þá heyr þú frá himnum bæn þeirra og grátbeiðni og rétt þú hlut þeirra.
36 Ef þeir syndga í gegn þér - því að enginn er sá er eigi syndgi - og þú reiðist þeim og gefur þá á vald óvinum þeirra, og sigurvegarar þeirra flytja þá hernumda til lands, langt eða skammt í burtu,
37 og þeir taka sinnaskipti í landinu, þar sem þeir eru hernumdir, og þeir snúa sér og grátbæna þig í útlegðarlandi sínu og segja: ,Vér höfum syndgað, vér höfum misgjört og vér höfum breytt óguðlega,'
38 og þeir snúa sér til þín af öllu hjarta sínu og allri sálu sinni í útlegðarlandi sínu, þangað sem þeir hafa flutt þá hernumda, og þeir biðjast fyrir og snúa sér í áttina til lands síns, þess er þú gafst feðrum þeirra, til borgarinnar, sem þú hefir útvalið, og til hússins, sem ég hefi reist þínu nafni,
39 þá heyr þú frá himnum, aðseturstað þínum, bæn þeirra og grátbeiðni, rétt þú hlut þeirra og fyrirgef lýð þínum það, sem þeir misgjörðu í móti þér.
40 Svo veri þá, Guð minn, augu þín opin og eyru þín gaumgæfin á bæn þá, er fram er borin á þessum stað.
41 Tak þig þá upp, Drottinn Guð, og far á hvíldarstað þinn, þú og örk máttar þíns. Prestar þínir, Drottinn Guð, séu klæddir hjálpræði, og þínir guðhræddu gleðjist yfir gæfunni.
42 Drottinn Guð, vísa þínum smurða eigi frá, minnst þú náðarveitinganna við Davíð þjón þinn."