Síðari kroníkubók

Kafla: 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 14 15 16 17 18 19 20 21 22 23 24 25 26 27 28 29 30 31 32 33 34 35 36


Kafla 12

1 En er konungdómur Rehabeams var fastur orðinn, og hann sjálfur orðinn fastur í sessi, þá yfirgaf hann lögmál Drottins og allur Ísrael með honum.
2 Á fimmta ríkisári Rehabeams fór Sísak Egyptalandskonungur herför móti Jerúsalem - af því að þeir höfðu sýnt Drottni ótrúmennsku -
3 með tólf hundruð vögnum og sextíu þúsund riddurum. Mátti eigi koma tölu á fólk það, er með honum kom frá Egyptalandi: Líbýumenn, Súkítar og Blálendingar.
4 Hann tók kastalaborgirnar, þær er voru í Júda, og komst allt til Jerúsalem.
5 En Semaja spámaður kom til Rehabeams og höfðingja Júda, er hörfað höfðu fyrir Sísak til Jerúsalem, og mælti til þeirra: "Svo segir Drottinn: Þér hafið yfirgefið mig, svo ofursel ég og yður á vald Sísaks."
6 Þá auðmýktu þeir sig, höfðingjar Ísraels og konungur, og sögðu: "Réttlátur er Drottinn!"
7 En er Drottinn sá, að þeir höfðu auðmýkt sig, kom orð Drottins til Semaja, svolátandi: "Þeir hafa auðmýkt sig; ég skal eigi tortíma þeim, heldur fulltingja þeim að nokkru, og eigi hella reiði minni yfir Jerúsalem fyrir Sísak.
8 Þó skulu þeir verða lýðskyldir honum, að þeir megi læra að þekkja muninn á að þjóna mér og á að þjóna heiðnum konungum."
9 Síðan fór Sísak Egyptalandskonungur herför móti Jerúsalem og tók fjársjóðu húss Drottins og fjársjóðu konungshallarinnar, tók það allt saman. Hann tók og gullskjölduna, er Salómon hafði gjöra látið.
10 Rehabeam konungur lét í þeirra stað gjöra eirskjöldu og fékk þá höfuðsmönnum lífvarðarins til geymslu, þeim er geyma dyra á höll konungs.
11 Og í hvert sinn, er konungur gekk í hús Drottins, komu varðliðsmennirnir og báru þá, og fóru síðan með þá aftur í herbergi varðliðsmannanna.
12 En er hann auðmýkti sig, hvarf reiði Drottins frá honum og tortímdi honum eigi með öllu; enn þá var þó eitthvað gott til í Júda.
13 Og Rehabeam konungur efldist í Jerúsalem og sat að völdum, því að Rehabeam hafði einn um fertugt, þá er hann varð konungur, og seytján ár ríkti hann í Jerúsalem, borginni sem Drottinn hafði útvalið af öllum ættkvíslum Ísraels til þess að láta nafn sitt búa þar. En móðir hans hét Naama og var ammónítísk.
14 Og hann breytti illa, því að hann lagði eigi hug á að leita Drottins.
15 En saga Rehabeams, frá upphafi til enda, er rituð í Sögu Semaja spámanns og Íddós sjáanda, í ættartölunum. Og ófriður stóð ávallt milli Rehabeams og Jeróbóams.
16 Og Rehabeam lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var jarðaður í Davíðsborg. Og Abía sonur hans tók ríki eftir hann.