Kafla 25
1 Þegar deila rís milli manna og þeir koma fyrir dóm, og dómur hefir upp kveðinn verið yfir þeim með þeim hætti, að hinn saklausi hefir verið sýknaður, en hinn seki dæmdur sekur,
2 og hinn seki hefir unnið til húðstroku, þá skal dómarinn láta leggja hann niður og láta slá hann í viðurvist sinni eins mörg högg og hæfir misgjörð hans.
3 Hann má láta slá hann fjörutíu högg, en ekki fleiri, til þess að bróðir þinn verði ekki fyrirlitlegur í augum þínum, ef haldið er áfram að slá hann enn mörg högg.
4 Þú skalt ekki múlbinda uxann, er hann þreskir.
5 Þegar bræður búa saman og einn þeirra deyr og á engan son, þá skal kona hins látna ekki giftast neinum manni úrættis. Mágur hennar skal ganga inn til hennar og taka hana sér fyrir konu og gegna mágskyldunni við hana,
6 en fyrsti sonurinn, er hún fæðir, skal teljast sonur hins látna bróður hans, svo að nafn hans afmáist ekki úr Ísrael.
7 En ef manninn fýsir eigi að ganga að eiga bróðurkonu sína, þá skal hún ganga upp í borgarhliðið, til öldunganna, og segja: "Mágur minn færist undan að halda við nafni bróður síns í Ísrael. Hann vill ekki gegna mágskyldunni við mig."
8 Öldungar borgar hans skulu þá kalla hann fyrir og tala við hann, og ef hann stendur fastur fyrir og segir: "Mig fýsir eigi að ganga að eiga hana,"
9 þá skal mágkona hans ganga að honum í viðurvist öldunganna, draga skóinn af fæti honum, hrækja framan í hann, taka til máls og segja: "Svo skal fara með hvern þann, er eigi vill reisa við ætt bróður síns."
10 Og ætt hans skal í Ísrael nefnd Berfótsætt.
11 Þegar tveir menn eru í áflogum, og kona annars hleypur að til þess að hjálpa manni sínum úr höndum þess, er slær hann, og hún réttir út höndina og tekur um hreðjar honum,
12 þá skalt þú höggva af henni höndina og eigi líta hana vægðarauga.
13 Þú skalt ekki hafa tvenns konar vogarsteina í sjóði þínum, annan stærri og hinn minni.
14 Þú skalt ekki hafa tvenns konar efu í húsi þínu, aðra stærri og hina minni.
15 Þú skalt hafa nákvæma og rétta vog, þú skalt hafa nákvæma og rétta efu, til þess að þú lifir lengi í landinu, sem Drottinn Guð þinn gefur þér.
16 Því að hver sá, er slíkt gjörir, hver sá er ranglæti fremur, er Drottni Guði þínum andstyggilegur.
17 Minnstu þess, hvernig Amalekítar fóru með þig á leiðinni, þá er þér fóruð af Egyptalandi,
18 hvernig þeir réðust á þig á leiðinni og unnu á þeim, er aftastir fóru, öllum þeim er þreyttir voru og aftur úr drógust, þegar þú varst orðinn lúinn og uppgefinn, - og óttuðust ekki Guð.
19 Fyrir því skalt þú, þegar Drottinn Guð þinn veitir þér hvíld fyrir öllum óvinum þínum allt í kringum þig í landinu, sem Drottinn Guð þinn gefur þér sem arf til eignar, afmá nafn Amalekíta af jörðinni. Gleym því ekki.