Kafla 13
1 Ef spámaður eða draumamaður rís upp meðal yðar og boðar þér tákn eða undur,
2 og táknið eða undrið rætist, það er hann hafði boðað þér og sagt um leið: "Vér skulum snúa oss til annarra guða (þeirra er þú hefir eigi þekkt), og vér skulum dýrka þá!"
3 þá skalt þú ekki hlýða á orð þess spámanns eða draumamanns, því að Drottinn Guð yðar reynir yður til þess að vita, hvort þér elskið Drottin Guð yðar af öllu hjarta yðar og af allri sálu yðar.
4 Drottni Guði yðar skuluð þér fylgja og hann skuluð þér óttast, og skipanir hans skuluð þér varðveita og raustu hans skuluð þér hlýða, og hann skuluð þér dýrka og við hann skuluð þér halda yður fast.
5 En spámann þann eða draumamann skal deyða, því að hann hefir prédikað uppreisn gegn Drottni Guði yðar, sem leiddi yður út af Egyptalandi og leysti þig úr þrælahúsinu, til þess að tæla þig burt af þeim vegi, sem Drottinn Guð þinn bauð þér að ganga. Þannig skalt þú útrýma hinu illa burt frá þér.
6 Ef bróðir þinn, sonur móður þinnar, eða sonur þinn eða dóttir þín eða konan í faðmi þínum eða vinur þinn, sem þú elskar eins og lífið í brjósti þínu, ginnir þig einslega og segir: "Vér skulum fara og dýrka aðra guði," þá er hvorki þú né feður þínir hafa þekkt,
7 af guðum þeirra þjóða, sem kringum yður eru, hvort heldur þær eru nálægar þér eða fjarlægar þér, frá einu heimsskauti til annars,
8 þá skalt þú eigi gjöra að vilja hans og eigi hlýða á hann, og þú skalt ekki líta hann vægðarauga og þú skalt ekki þyrma honum né hylma yfir með honum,
9 heldur skalt þú drepa hann, þín hönd skal fyrst á lofti vera gegn honum til þess að deyða hann, og því næst hönd alls lýðsins.
10 Þú skalt lemja hann grjóti til bana, af því að hann leitaðist við að tæla þig frá Drottni Guði þínum, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu.
11 Og allur Ísrael skal heyra það og skelfast, svo að enginn hafist framar að slíkt ódæði þín á meðal.
12 Ef þú heyrir sagt um einhverja af borgum þínum, þeim er Drottinn Guð þinn gefur þér til þess að búa í:
13 "Varmenni nokkur eru upp komin þín á meðal, og hafa þau tælt samborgara sína og sagt: ,Vér skulum fara og dýrka aðra guði, þá er þér þekkið ekki,'"
14 þá skalt þú rækilega rannsaka það, grennslast eftir og spyrjast fyrir, og ef það reynist satt vera, að slík svívirðing hafi framin verið þín á meðal,
15 þá skalt þú fella íbúa þeirrar borgar með sverðseggjum, bannfæra borgina og allt, sem í henni er, og fénaðinn í henni með sverðseggjum.
16 Allt herfangið úr henni skalt þú bera saman á torgið og brenna síðan borgina og allt herfangið í eldi sem eldfórn Drottni Guði þínum til handa, og hún skal verða ævarandi rúst og aldrei framar endurreist verða.
17 Og ekkert af hinu bannfærða skal loða við hendur þínar, til þess að Drottinn megi láta af hinni brennandi reiði sinni og auðsýni þér miskunnsemi, og til þess að hann miskunni þér og margfaldi þig, eins og hann sór feðrum þínum,
18 er þú hlýðir raustu Drottins Guðs þíns með því að varðveita allar skipanir hans, þær er ég legg fyrir þig í dag, og gjörir það sem rétt er í augum Drottins Guðs þíns.