Kafla 5
1 Hlustið á, þér auðmenn, grátið og kveinið yfir þeim bágindum, sem yfir yður munu koma.
2 Auður yðar er orðinn fúinn og klæði yðar eru orðin möletin,
3 gull yðar og silfur er orðið ryðbrunnið og ryðið á því mun verða yður til vitnis og eta hold yðar eins og eldur. Þér hafið fjársjóðum safnað á síðustu dögunum.
4 Launin hrópa, þau sem þér hafið haft af verkamönnunum, sem slógu lönd yðar, og köll kornskurðarmannanna eru komin til eyrna Drottins hersveitanna.
5 Þér hafið lifað í sællífi á jörðinni og í óhófi. Þér hafið alið hjörtu yðar á slátrunardegi.
6 Þér hafið sakfellt og drepið hinn réttláta. Hann veitir yður ekki viðnám.
7 Þreyið því, bræður, þangað til Drottinn kemur. Sjáið akuryrkjumanninn, hann bíður eftir hinum dýrmæta ávexti jarðarinnar og þreyir eftir honum, þangað til hann hefur fengið haustregn og vorregn.
8 Þreyið og þér, styrkið hjörtu yðar, því að koma Drottins er í nánd.
9 Kvartið ekki hver yfir öðrum, bræður, svo að þér verðið ekki dæmdir. Dómarinn stendur fyrir dyrum.
10 Bræður, takið spámennina til fyrirmyndar, sem talað hafa í nafni Drottins og liðið illt með þolinmæði.
11 Því vér teljum þá sæla, sem þolgóðir hafa verið. Þér hafið heyrt um þolgæði Jobs og vitið, hvaða lyktir Drottinn gjörði á högum hans. Drottinn er mjög miskunnsamur og líknsamur.
12 En umfram allt, bræður mínir, sverjið ekki, hvorki við himininn né við jörðina né nokkurn annan eið. En já yðar sé já, nei yðar sé nei, til þess að þér fallið ekki undir dóm.
13 Líði nokkrum illa yðar á meðal, þá biðji hann. Liggi vel á einhverjum, þá syngi hann lofsöng.
14 Sé einhver sjúkur yðar á meðal, þá kalli hann til sín öldunga safnaðarins og þeir skulu smyrja hann með olíu í nafni Drottins og biðjast fyrir yfir honum.
15 Trúarbænin mun gjöra hinn sjúka heilan, og Drottinn mun reisa hann á fætur. Þær syndir, sem hann kann að hafa drýgt, munu honum verða fyrirgefnar.
16 Játið því hver fyrir öðrum syndir yðar og biðjið hver fyrir öðrum, til þess að þér verðið heilbrigðir. Kröftug bæn réttláts manns megnar mikið.
17 Elía var maður sama eðlis og vér, og hann bað þess heitt, að ekki skyldi rigna, og það rigndi ekki yfir landið í þrjú ár og sex mánuði.
18 Og hann bað aftur, og himinninn gaf regn og jörðin bar sinn ávöxt.
19 Bræður mínir, ef einhver meðal yðar villist frá sannleikanum og einhver snýr honum aftur,
20 þá viti hann, að hver sem snýr syndara frá villu vegar hans mun frelsa sálu hans frá dauða og hylja fjölda synda.