Kafla 1
1 Guð talaði fyrrum oftsinnis og með mörgu móti til feðranna fyrir munn spámannanna.
2 En nú í lok þessara daga hefur hann til vor talað í syni sínum, sem hann setti erfingja allra hluta. Fyrir hann hefur hann líka heimana gjört.
3 Hann, sem er ljómi dýrðar hans og ímynd veru hans og ber allt með orði máttar síns, hreinsaði oss af syndum vorum og settist til hægri handar hátigninni á hæðum.
4 Hann er orðinn englunum þeim mun meiri sem hann hefur að erfðum tekið ágætara nafn en þeir.
5 Því við hvern af englunum hefur hann nokkru sinni sagt: Þú ert sonur minn, í dag hef ég fætt þig. Eða: Ég vil vera honum faðir, og hann skal vera mér sonur!
6 Og aftur er hann leiðir hinn frumgetna inn í heimsbyggðina segir hann: Og allir englar Guðs skulu tilbiðja hann.
7 Og um englana segir hann: Hann sem gjörir engla sína að vindum og þjóna sína að eldslogum.
8 En um soninn: Hásæti þitt, ó Guð, er um aldir alda, og sproti réttvísinnar er sproti ríkis þíns.
9 Þú hefur elskað réttlæti og hatað ranglæti. Því hefur Guð, þinn Guð, smurt þig gleðinnar olíu fram yfir þína jafningja.
10 Og: Þú, Drottinn, hefur í upphafi grundvallað jörðina, og himnarnir eru verk handa þinna.
11 Þeir munu farast, en þú varir. Allir munu þeir fyrnast sem fat,
12 og þú munt þá saman vefja eins og möttul, um þá verður skipt sem klæði. En þú ert hinn sami, og þín ár taka aldrei enda.
13 En við hvern af englunum hefur hann nokkru sinni sagt: Set þig mér til hægri handar, uns ég gjöri óvini þína að fótskör þinni?
14 Eru þeir ekki allir þjónustubundnir andar, útsendir í þeirra þarfir, sem hjálpræðið eiga að erfa?