Kafla 1
1 Páll, að vilja Guðs postuli Krists Jesú og Tímóteus, bróðir vor, heilsa
2 hinum heilögu og trúuðu bræðrum í Kólossu, sem eru í Kristi. Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum.
3 Vér þökkum Guði, föður Drottins vors Jesú Krists, ávallt er vér biðjum fyrir yður.
4 Því að vér höfum heyrt um trú yðar á Krist Jesú og um kærleikann, sem þér berið til allra heilagra,
5 vegna vonar þeirrar, sem yður er geymd í himnunum. Um þá von hafið þér áður heyrt í orði sannleikans, fagnaðarerindinu,
6 sem til yðar er komið, eins og það einnig ber ávöxt og vex í öllum heiminum. Það hefur það líka gjört hjá yður frá þeim degi, er þér heyrðuð það og lærðuð að þekkja náð Guðs í sannleika.
7 Hið sama hafið þér og numið af Epafrasi, vorum elskaða samþjóni, sem er trúr þjónn Krists í vorn stað.
8 Hann hefur og sagt oss frá kærleika yðar, sem andinn hefur vakið með yður.
9 Frá þeim degi, er vér heyrðum þetta, höfum vér því ekki látið af að biðja fyrir yður. Vér biðjum þess, að þér mættuð fyllast þekkingu á vilja Guðs með allri speki og skilningi andans,
10 svo að þér hegðið yður eins og Drottni er samboðið, honum til þóknunar á allan hátt, og fáið borið ávöxt í öllu góðu verki og vaxið að þekkingu á Guði.
11 Mætti hann styrkja yður á allan hátt með dýrðarmætti sínum, svo að þér fyllist þolgæði í hvívetna og umburðarlyndi og getið með gleði
12 þakkað föðurnum, sem hefur gjört yður hæfa til að fá hlutdeild í arfleifð heilagra í ljósinu.
13 Hann hefur frelsað oss frá valdi myrkursins og flutt oss inn í ríki síns elskaða sonar.
14 Í honum eigum vér endurlausnina, fyrirgefningu synda vorra.
15 Hann er ímynd hins ósýnilega Guðs, frumburður allrar sköpunar.
16 Enda var allt skapað í honum í himnunum og á jörðinni, hið sýnilega og hið ósýnilega, hásæti og herradómar, tignir og völd. Allt er skapað fyrir hann og til hans.
17 Hann er fyrri en allt, og allt á tilveru sína í honum.
18 Og hann er höfuð líkamans, kirkjunnar, hann sem er upphafið, frumburðurinn frá hinum dauðu. Þannig skyldi hann verða fremstur í öllu.
19 Því að í honum þóknaðist Guði að láta alla fyllingu sína búa
20 og láta hann koma öllu í sátt við sig, öllu bæði á jörðu og himnum, með því að semja frið með blóði sínu úthelltu á krossi.
21 Og yður, sem áður fyrri voruð fráhverfir Guði og óvinveittir honum í huga yðar og vondum verkum,
22 yður hefur hann nú sátta gjört við sig með dauða Krists í jarðneskum líkama. Hann vildi láta yður koma fram fyrir sig heilaga og lýtalausa og óaðfinnanlega.
23 Standið aðeins stöðugir í trúnni, grundvallaðir og fastir fyrir og hvikið ekki frá von fagnaðarerindisins, sem þér hafið heyrt og prédikað hefur verið fyrir öllu, sem skapað er undir himninum, og er ég, Páll, orðinn þjónn þess.
24 Nú er ég glaður í þjáningum mínum yðar vegna. Það, sem enn vantar á þjáningar Krists, uppfylli ég með líkamlegum þjáningum mínum til heilla fyrir líkama hans, sem er kirkjan.
25 En hans þjónn er ég orðinn samkvæmt því hlutverki, sem Guð hefur mér á hendur falið yðar vegna: Að flytja Guðs orð óskorað,
26 leyndardóminn, sem hefur verið hulinn frá upphafi tíða og kynslóða, en nú hefur hann verið opinberaður Guðs heilögu.
27 Guð vildi kunngjöra þeim, hvílíkan dýrðar ríkdóm heiðnu þjóðirnar eiga í þessum leyndardómi, sem er Kristur meðal yðar, von dýrðarinnar.
28 Hann boðum vér, er vér áminnum sérhvern mann og fræðum með allri speki, til þess að vér getum leitt hvern mann fram fullkominn í Kristi.
29 Að þessu strita ég og stríði með þeim mætti, sem kröftuglega verkar í mér.