Kafla 12
1 En svo ég minnist á gáfur andans, bræður, þá vil ég ekki að þér séuð fáfróðir um þær.
2 Þér vitið, að þegar þér voruð heiðingjar, þá létuð þér leiða yður til mállausra skurðgoðanna, rétt eins og verkast vildi.
3 Fyrir því læt ég yður vita, að enginn, sem talar af Guðs anda, segir: "Bölvaður sé Jesús!" og enginn getur sagt: "Jesús er Drottinn!" nema af heilögum anda.
4 Mismunur er á náðargáfum, en andinn er hinn sami,
5 og mismunur er á embættum, en Drottinn hinn sami,
6 og mismunur er á hæfileikum að framkvæma, en Guð hinn sami, sem öllu kemur til leiðar í öllum.
7 Andinn opinberast í sérhverjum til þess, sem gagnlegt er.
8 Einum er fyrir andann gefið að mæla af speki, öðrum að mæla af þekkingu í krafti sama anda.
9 Hinn sami andi veitir einum trú, öðrum lækningagáfu
10 og öðrum kraft til að framkvæma undur. Einn fær spádómsgáfu, annar hæfileika að greina anda, einn að tala tungum og annar að útleggja tungutal.
11 En öllu þessu kemur til leiðar eini og sami andinn, og hann útbýtir hverjum einum eftir vild sinni.
12 Því að eins og líkaminn er einn og hefur marga limi, en allir limir líkamans, þótt margir séu, eru einn líkami, þannig er og Kristur.
13 Í einum anda vorum vér allir skírðir til að vera einn líkami, hvort sem vér erum Gyðingar eða Grikkir, þrælar eða frjálsir, og allir fengum vér einn anda að drekka.
14 Því að líkaminn er ekki einn limur, heldur margir.
15 Ef fóturinn segði: "Fyrst ég er ekki hönd, heyri ég ekki líkamanum til," þá er hann ekki fyrir það líkamanum óháður.
16 Og ef eyrað segði: "Fyrst ég er ekki auga, heyri ég ekki líkamanum til," þá er það ekki þar fyrir líkamanum óháð.
17 Ef allur líkaminn væri auga, hvar væri þá heyrnin? Ef hann væri allur heyrn, hvar væri þá ilmanin?
18 En nú hefur Guð sett hvern einstakan lim á líkamann eins og honum þóknaðist.
19 Ef allir limirnir væru einn limur, hvar væri þá líkaminn?
20 En nú eru limirnir margir, en líkaminn einn.
21 Augað getur ekki sagt við höndina: "Ég þarfnast þín ekki!" né heldur höfuðið við fæturna: "Ég þarfnast ykkar ekki!"
22 Nei, miklu fremur eru þeir limir á líkamanum nauðsynlegir, sem virðast vera í veikbyggðara lagi.
23 Og þeim, sem oss virðast vera í óvirðulegra lagi á líkamanum, þeim veitum vér því meiri sæmd, og þeim, sem vér blygðumst vor fyrir, sýnum vér því meiri blygðunarsemi.
24 Þess þarfnast hinir ásjálegu limir vorir ekki. En Guð setti líkamann svo saman, að hann gaf þeim, sem síðri var, því meiri sæmd,
25 til þess að ekki yrði ágreiningur í líkamanum, heldur skyldu limirnir bera sameiginlega umhyggju hver fyrir öðrum.
26 Og hvort heldur einn limur þjáist, þá þjást allir limirnir með honum, eða einn limur er í hávegum hafður, samgleðjast allir limirnir honum.
27 Þér eruð líkami Krists og limir hans hver um sig.
28 Guð hefur sett nokkra í kirkjunni, fyrst postula, í öðru lagi spámenn, í þriðja lagi fræðara, sumum hefur hann veitt gáfu að gjöra kraftaverk, lækna, vinna líknarstörf, stjórna og tala tungum.
29 Hvort eru allir postular? Hvort eru allir spámenn? Hvort eru allir fræðarar? Hvort eru allir kraftaverkamenn?
30 Hvort hafa allir hlotið lækningagáfu? Hvort tala allir tungum? Hvort útlista allir tungutal?
31 Nei, sækist heldur eftir náðargáfunum, þeim hinum meiri. Og nú bendi ég yður á enn þá miklu ágætari leið.