Postulasagan

Kafla: 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 14 15 16 17 18 19 20 21 22 23 24 25 26 27 28


Kafla 7

1 Þá spurði æðsti presturinn: "Er þessu svo farið?"
2 Stefán svaraði: "Heyrið mig, bræður og feður. Guð dýrðarinnar birtist föður vorum, Abraham, er hann var enn í Mesópótamíu, áður en hann settist að í Haran,
3 og sagði við hann: ,Far þú burt úr landi þínu og frá ættfólki þínu til landsins, sem ég mun vísa þér á.'
4 Þá fór hann burt úr Kaldealandi og settist að í Haran. En eftir lát föður hans leiddi Guð hann þaðan til þessa lands, sem þér nú byggið.
5 Ekki gaf hann honum óðal hér, ekki eitt fótmál. En hann hét honum að gefa honum landið til eignar og niðjum hans eftir hann, þótt hann væri enn barnlaus.
6 Guð sagði, að niðjar hans mundu búa sem útlendingar í ókunnu landi og verða þjáðir og þrælkaðir í fjögur hundruð ár.
7 ,En þjóðina, sem þrælkar þá, mun ég dæma,' sagði Guð, ,og eftir það munu þeir fara þaðan og þjóna mér á þessum stað.'
8 Þá gaf hann honum sáttmála umskurnarinnar. Síðan gat Abraham Ísak og umskar hann á áttunda degi, og Ísak gat Jakob og Jakob ættfeðurna tólf.
9 Og ættfeðurnir öfunduðu Jósef og seldu hann til Egyptalands. En Guð var með honum,
10 frelsaði hann úr öllum þrengingum hans og veitti honum hylli og visku í augum Faraós, Egyptalandskonungs, svo að hann skipaði hann höfðingja yfir Egyptaland og yfir allt sitt hús.
11 Nú kom hallæri á öllu Egyptalandi og Kanaan og mikil þrenging, og feður vorir höfðu ekki lífsbjörg.
12 En er Jakob heyrði, að korn væri til á Egyptalandi, sendi hann feður vora þangað hið fyrra sinn.
13 Og í síðara skiptið gaf Jósef sig fram við bræður sína, og Faraó varð kunn ætt Jósefs.
14 En Jósef sendi eftir Jakobi föður sínum og öllu ættfólki sínu, sjötíu og fimm manns,
15 og Jakob fór suður til Egyptalands. Þar andaðist hann og feður vorir.
16 Þeir voru fluttir til Síkem og lagðir í grafreitinn, er Abraham hafði keypt fyrir silfur af sonum Hemors í Síkem.
17 Nú tók að nálgast sá tími, er rætast skyldi fyrirheitið, sem Guð hafði gefið Abraham. Fólkið hafði vaxið og margfaldast í Egyptalandi.
18 ,Þá hófst til ríkis þar annar konungur, er eigi vissi skyn á Jósef.'
19 Hann beitti kyn vort slægð og lék feður vora illa. Hann lét þá bera út ungbörn sín, til þess að þjóðin skyldi eigi lífi halda.
20 Um þessar mundir fæddist Móse og var forkunnar fríður. Þrjá mánuði var hann fóstraður í húsi föður síns.
21 En er hann var út borinn, tók dóttir Faraós hann og fóstraði sem sinn son.
22 Móse var fræddur í allri speki Egypta, og hann var máttugur í orðum sínum og verkum.
23 Þegar hann var fertugur að aldri, kom honum í hug að vitja bræðra sinna, Ísraelsmanna.
24 Hann sá einn þeirra verða fyrir ójöfnuði, og rétti hann hlut hans, hefndi þess, sem meingjörðina þoldi, og drap Egyptann.
25 Hann hugði, að bræður hans mundu skilja, að Guð ætlaði að nota hann til að bjarga þeim, en þeir skildu það ekki.
26 Næsta dag kom hann að tveim þeirra, sem slógust. Hann reyndi að stilla til friðar með þeim og sagði: ,Góðir menn, þið eruð bræður, hví eigist þið illt við?'
27 En sá sem beitti náunga sinn órétti, hratt honum frá sér og sagði: ,Hver skipaði þig höfðingja og dómara yfir okkur?
28 Þú munt þó ekki vilja drepa mig, eins og þú drapst Egyptann í gær?'
29 Við þessi orð flýði Móse og settist að sem útlendingur í Midíanslandi. Þar gat hann tvo sonu.
30 Að fjörutíu árum liðnum ,birtist honum engill í eyðimörk Sínaífjalls í logandi þyrnirunna.'
31 Móse undraðist sýnina, gekk nær og vildi hyggja að. Þá hljómaði rödd Drottins:
32 ,Ég er Guð feðra þinna, Guð Abrahams, Ísaks og Jakobs.' En Móse skelfdist og þorði ekki að hyggja frekar að.
33 En Drottinn sagði við hann: ,Leys af þér skó þína, því að staðurinn, sem þú stendur á, er heilög jörð.
34 Ég hef sannlega séð áþján lýðs míns á Egyptalandi og heyrt andvörp þeirra og er ofan kominn að frelsa þá. Kom nú, ég vil senda þig til Egyptalands.'
35 Þennan Móse, er þeir afneituðu með því að segja: ,Hver skipaði þig höfðingja og dómara?' hann sendi Guð sem höfðingja og lausnara með fulltingi engilsins, er honum birtist í þyrnirunnanum.
36 Það var Móse, sem leiddi þá út og gjörði undur og tákn á Egyptalandi, í Rauðahafinu og á eyðimörkinni í fjörutíu ár.
37 Þessi er sá Móse, sem sagði við Ísraelsmenn: ,Spámann eins og mig mun Guð upp vekja yður, einn af bræðrum yðar.'
38 Hann er sá, sem var í söfnuðinum í eyðimörkinni, með englinum, er við hann talaði á Sínaífjalli, og með feðrum vorum. Hann tók á móti lifandi orðum að gefa oss.
39 Eigi vildu feður vorir hlýðnast honum, heldur hrundu honum frá sér og þráðu í hjörtum sínum Egyptaland.
40 Þeir sögðu við Aron: ,Gjör oss guði, er fyrir oss fari, því að ekki vitum vér, hvað orðið er af Móse þeim, sem leiddi oss brott af Egyptalandi.'
41 Og á þeim dögum smíðuðu þeir kálf, færðu skurðgoðinu fórn og kættust af verki handa sinna.
42 En Guð sneri sér frá þeim og lét þeim eftir að dýrka her himinsins, eins og ritað er í spámannabókinni: Hvort færðuð þér mér, Ísraels ætt, sláturdýr og fórnir árin fjörutíu í eyðimörkinni?
43 Nei, þér báruð búð Móloks og stjörnu guðsins Refans, myndirnar, sem þér smíðuðuð til þess að tilbiðja þær. Ég mun herleiða yður austur fyrir Babýlon.
44 Vitnisburðartjaldbúðina höfðu feður vorir í eyðimörkinni. Hún var gjörð eins og sá bauð, er við Móse mælti, eftir þeirri fyrirmynd, sem Móse sá.
45 Við henni tóku og feður vorir, fluttu hana með Jósúa inn í landið, sem þeir tóku til eignar af heiðingjunum, er Guð rak brott undan þeim. Stóð svo allt til daga Davíðs.
46 Hann fann náð hjá Guði og bað, að hann mætti finna bústað fyrir Jakobs Guð.
47 En Salómon reisti honum hús.
48 En eigi býr hinn hæsti í því, sem með höndum er gjört. Spámaðurinn segir:
49 Himinninn er hásæti mitt og jörðin skör fóta minna. Hvaða hús munuð þér reisa mér, segir Drottinn, eða hver er hvíldarstaður minn?
50 Hefur ekki hönd mín skapað allt þetta?
51 Þér harðsvíraðir og óumskornir í hjörtum og á eyrum, þér standið ávallt gegn heilögum anda, þér eins og feður yðar.
52 Hver var sá spámaður, sem feður yðar ofsóttu eigi? Þeir drápu þá, er boðuðu fyrirfram komu hins réttláta, og nú hafið þér svikið hann og myrt.
53 Þér sem lögmálið fenguð fyrir umsýslan engla, en hafið þó eigi haldið það."
54 Þegar þeir heyrðu þetta, trylltust þeir og gnístu tönnum gegn honum.
55 En hann horfði til himins, fullur af heilögum anda og leit dýrð Guðs og Jesú standa til hægri handar Guði
56 og sagði: "Ég sé himnana opna og Mannssoninn standa til hægri handar Guði."
57 Þá æptu þeir hástöfum, héldu fyrir eyrun og réðust að honum, allir sem einn maður.
58 Þeir hröktu hann út úr borginni og tóku að grýta hann. En vottarnir lögðu yfirhafnir sínar að fótum ungum manni, er Sál hét.
59 Þannig grýttu þeir Stefán. En hann ákallaði Drottin og sagði: "Drottinn Jesús, meðtak þú anda minn."
60 Síðan féll hann á kné og hrópaði hárri röddu: "Drottinn, lát þá ekki gjalda þessarar syndar." Þegar hann hafði þetta mælt, sofnaði hann.