Jóhannesarguðspjall

Kafla: 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 14 15 16 17 18 19 20 21


Kafla 3

1 Maður hét Nikódemus, af flokki farísea, ráðsherra meðal Gyðinga.
2 Hann kom til Jesú um nótt og sagði við hann: "Rabbí, vér vitum, að þú ert lærifaðir kominn frá Guði. Enginn getur gjört þessi tákn, sem þú gjörir, nema Guð sé með honum."
3 Jesús svaraði honum: "Sannlega, sannlega segi ég þér: Enginn getur séð Guðs ríki, nema hann fæðist að nýju."
4 Nikódemus segir við hann: "Hvernig getur maður fæðst, þegar hann er orðinn gamall? Skyldi hann geta komist aftur í líf móður sinnar og fæðst?"
5 Jesús svaraði: "Sannlega, sannlega segi ég þér: Enginn getur komist inn í Guðs ríki, nema hann fæðist af vatni og anda.
6 Það sem af holdinu fæðist, er hold, en það sem af andanum fæðist, er andi.
7 Undrast eigi, að ég segi við þig: Yður ber að fæðast að nýju.
8 Vindurinn blæs þar sem hann vill, og þú heyrir þyt hans. Samt veistu ekki, hvaðan hann kemur né hvert hann fer. Svo er um þann, sem af andanum er fæddur."
9 Þá spurði Nikódemus: "Hvernig má þetta verða?"
10 Jesús svaraði honum: "Þú ert lærifaðir í Ísrael og veist ekki þetta?
11 Sannlega, sannlega segi ég þér: Vér tölum um það, sem vér þekkjum, og vitnum um það, sem vér höfum séð, en þér takið ekki á móti vitnisburði vorum.
12 Ef þér trúið eigi, þegar ég ræði við yður jarðnesk efni, hvernig skylduð þér þá trúa, er ég ræði við yður um hin himnesku?
13 Enginn hefur stigið upp til himins, nema sá er steig niður frá himni, Mannssonurinn.
14 Og eins og Móse hóf upp höggorminn í eyðimörkinni, þannig á Mannssonurinn að verða upp hafinn,
15 svo að hver sem trúir hafi eilíft líf í honum.
16 Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.
17 Guð sendi ekki soninn í heiminn til að dæma heiminn, heldur að heimurinn skyldi frelsast fyrir hann.
18 Sá sem trúir á hann, dæmist ekki. Sá sem trúir ekki, er þegar dæmdur, því að hann hefur ekki trúað á nafn Guðs sonarins eina.
19 En þessi er dómurinn: Ljósið er komið í heiminn, en menn elskuðu myrkrið fremur en ljósið, því að verk þeirra voru vond.
20 Hver sem illt gjörir hatar ljósið og kemur ekki til ljóssins, svo að verk hans verði ekki uppvís.
21 En sá sem iðkar sannleikann kemur til ljóssins, svo að augljóst verði, að verk hans eru í Guði gjörð."
22 Eftir þetta fór Jesús og lærisveinar hans út í Júdeuhérað. Þar dvaldist hann með þeim og skírði.
23 Jóhannes var líka að skíra í Aínon nálægt Salím, en þar var mikið vatn. Menn komu þangað og létu skírast.
24 Þá var ekki enn búið að varpa Jóhannesi í fangelsi.
25 Nú varð deila um hreinsun milli lærisveina Jóhannesar og Gyðings eins.
26 Þeir komu til Jóhannesar og sögðu við hann: "Rabbí, sá sem var hjá þér handan við Jórdan og þú barst vitni um, hann er að skíra, og allir koma til hans."
27 Jóhannes svaraði þeim: "Enginn getur tekið neitt, nema honum sé gefið það af himni.
28 Þér getið sjálfir vitnað um, að ég sagði: ,Ég er ekki Kristur, heldur er ég sendur á undan honum.'
29 Sá er brúðguminn, sem á brúðina, en vinur brúðgumans, sem stendur hjá og hlýðir á hann, gleðst mjög við rödd hans. Þessi gleði er nú mín að fullu.
30 Hann á að vaxa, en ég að minnka.
31 Sá sem kemur að ofan, er yfir öllum. Sá sem er af jörðu, hann er af jörðu og talar af jörðu. Sá sem kemur af himni, er yfir öllum
32 og vitnar um það, sem hann hefur séð og heyrt, og enginn tekur á móti vitnisburði hans.
33 En sá sem hefur tekið á móti vitnisburði hans, hefur staðfest, að Guð sé sannorður.
34 Sá sem Guð sendi, talar Guðs orð, því ómælt gefur Guð andann.
35 Faðirinn elskar soninn og hefur lagt allt í hönd honum.
36 Sá sem trúir á soninn, hefur eilíft líf, en sá sem óhlýðnast syninum, mun ekki sjá líf, heldur varir reiði Guðs yfir honum."