Habakkuk

Kafla: 1 2 3


Kafla 3

1 Bæn Habakkuks spámanns. Með strengjaleik.
2 Drottinn, ég hefi heyrt boðskap þinn, ég er hræddur. Drottinn, endurnýja verk þitt áður en mörg ár líða, lát það verða kunnugt áður en mörg ár líða. Minnst þú miskunnar í reiðinni.
3 Guð kemur frá Teman og Hinn heilagi frá Paranfjöllum. (Sela.) Tign hans þekur himininn, og af dýrð hans er jörðin full.
4 Ljómi birtist eins og sólarljós, geislar stafa út frá hendi hans, og þar er hjúpurinn um mátt hans.
5 Drepsóttin fer á undan honum, og sýkin fetar í fótspor hans.
6 Hann gengur fram, og jörðin nötrar, hann lítur upp, og þjóðirnar hrökkva við. Þá molast hin öldnu fjöll sundur, þá sökkva hinar eilífu hæðir niður, hann gengur sama veginn og forðum daga.
7 Ég sé tjöld Kúsans í nauðum stödd, tjalddúkarnir í Midíanslandi bifast til og frá.
8 Ert þú, Drottinn, reiður fljótunum, eða beinist bræði þín að þeim? Eða beinist heift þín að hafinu, úr því þú ekur með hesta þína, á sigurvagni þínum?
9 Ber og nakinn er bogi þinn, þú fyllir örvamæli þinn skeytum, þú klýfur vatnsföll, svo að land kemur fram.
10 Fjöllin sjá þig og skjálfa, steypiregn dynur yfir, hafdjúpið lætur raust sína drynja, réttir hendur sínar hátt upp.
11 Sól og tungl bíða kyrr í híbýlum sínum, fyrir ljósi þinna þjótandi örva, fyrir ljóma þíns leiftrandi spjóts.
12 Í gremi fetar þú yfir jörðina, í reiði þreskir þú þjóðirnar.
13 Þú fer að heiman til þess að frelsa þjóð þína, til þess að hjálpa þínum smurða. Þú brýtur niður mæninn á húsi hins óguðlega, gjörir grundvöllinn beran niður á klöpp.
14 Þú rekur lensur gegnum höfuðið á herforingjum hans, er geysast fram til að tvístra mér. Fagnaðaróp þeirra glymja, eins og þeir ætluðu að uppeta hina hrjáðu í leyni.
15 Þú fer yfir hafið með hesta þína, yfir svelg mikilla vatna.
16 Þegar ég heyrði það, titraði hjarta mitt, varir mínar skulfu við fregnina. Hrollur kom í bein mín, og ég varð skjálfandi á fótum, að ég yrði að bíða hörmungadagsins, uns hann rennur upp þeirri þjóð, er á oss ræðst.
17 Þótt fíkjutréð blómgist ekki og víntrén beri engan ávöxt, þótt gróði olíutrésins bregðist og akurlöndin gefi enga fæðu, þótt sauðfé hverfi úr réttinni og engin naut verði eftir í nautahúsunum,
18 þá skal ég þó gleðjast í Drottni, fagna yfir Guði hjálpræðis míns.
19 Drottinn Guð er styrkur minn! Hann gjörir fætur mína sem hindanna og lætur mig ganga eftir hæðunum. Til söngstjórans. Með strengjaleik.