Kafla 3
1 Heyrið þetta orð, sem Drottinn hefir talað gegn yður, þér Ísraelsmenn, gegn öllum þeim kynstofni, sem ég leiddi út af Egyptalandi, svolátandi:
2 Yður eina læt ég mér annt um fremur öllum kynstofnum jarðarinnar. Þess vegna hegni ég yður fyrir allar misgjörðir yðar.
3 Mega tveir menn verða samferða, nema þeir mæli sér mót?
4 Mun ljónið öskra í skóginum, ef það hefir enga bráð? Mun ljónshvolpurinn láta til sín heyra í bæli sínu, ef hann hefir engu náð?
5 Getur fuglinn komið í gildruna á jörðinni, ef engin snara er þar fyrir hann? Hrökkur gildran upp af jörðinni, nema eitthvað hafi í hana fengist?
6 Verður lúðurinn svo þeyttur innan borgar, að fólkið flykkist ekki saman í angist? Vill nokkur ógæfa svo til í borginni, að Drottinn sé ekki valdur að henni?
7 Nei, Drottinn Guð gjörir ekkert án þess að hann hafi opinberað þjónum sínum, spámönnunum, ráðsályktun sína.
8 Hafi ljónið öskrað, hver skyldi þá ekki óttast? Hafi Drottinn Guð talað, hver skyldi þá ekki spá?
9 Kallið út yfir hallirnar í Asdód og hallirnar í Egyptalandi og segið: Safnist saman upp á Samaríufjöll og lítið á hina miklu ókyrrð í borginni og ofbeldisverkin inni í henni.
10 Þeir kunna ekki rétt að gjöra - segir Drottinn -, þeir sem hrúga upp ofríki og kúgun í höllum sínum.
11 Fyrir því segir Drottinn Guð svo: Fjandmenn munu umkringja landið á alla vegu og rífa niður virki þín, og hallir þínar munu rændar verða.
12 Svo segir Drottinn: Eins og hirðirinn bjargar tveimur fótum eða snepli af eyra úr gini ljónsins, svo skulu Ísraelsmenn bjargast, þeir er sitja í Samaríu í legubekkjarhorni og á hvílbeðjarhægindum.
13 Heyrið og verið vottar að þessu gegn Jakobs húsi, segir Drottinn alvaldur, Guð allsherjar:
14 Þann dag, er ég hegni Ísraelsmönnum fyrir glæpi þeirra, vil ég láta hegninguna koma niður á ölturunum í Betel, til þess að altarishornin verði afhöggin og falli til jarðar.
15 Þá vil ég brjóta niður vetrarhallirnar ásamt sumarhöllunum, og fílabeinshallirnar skulu farast og mörg hús eyðileggjast, - segir Drottinn.