Daníel

Kafla: 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12


Kafla 6

1 (6:2) Daríusi þóknaðist að setja yfir ríkið hundrað og tuttugu jarla, er skipað skyldi niður um allt ríkið,
2 (6:3) og yfir þá þrjá yfirhöfðingja, og var Daníel einn af þeim. Skyldu jarlarnir gjöra þeim skilagrein, svo að konungur biði engan skaða.
3 (6:4) Þá bar Daníel þessi af yfirhöfðingjunum og jörlunum, sökum þess að hann hafði frábæran anda, og hugði konungur að setja hann yfir allt ríkið.
4 (6:5) Þá leituðu yfirhöfðingjarnir og jarlarnir að finna Daníel eitthvað til saka viðvíkjandi ríkisstjórninni, en gátu enga sök eða ávirðing fundið, því að hann var trúr, svo að ekkert tómlæti né ávirðing fannst hjá honum.
5 (6:6) Þá sögðu þessir menn: "Vér munum ekkert fundið geta Daníel þessum til saka, nema ef vér finnum honum eitthvað að sök í átrúnaði hans."
6 (6:7) Þá þustu þessir yfirhöfðingjar og jarlar til konungs og sögðu svo við hann: "Daríus konungur lifi eilíflega!
7 (6:8) Öllum yfirhöfðingjum ríkisins, landstjórum, jörlum, ráðgjöfum og landshöfðingjum hefir komið ásamt um að gefa út þá konungsskipun og staðfesta það forboð, að hver sem í þrjátíu daga gjörir bæn sína til nokkurs guðs eða manns, nema til þín, konungur, honum skuli varpa í ljónagryfju.
8 (6:9) Nú skalt þú, konungur, gefa út forboð þetta og láta það skriflegt út ganga, svo að því verði ekki breytt, eftir órjúfanlegu lögmáli Meda og Persa."
9 (6:10) Samkvæmt þessu lét konungur gefa skriflega út skipunina og bannið.
10 (6:11) En er Daníel varð þess vísari, að þessi skipun var út gefin, gekk hann inn í hús sitt. Þar hafði hann uppi í loftstofu sinni opna glugga, er sneru móti Jerúsalem, og þrem sinnum á dag kraup hann á kné, bað til Guðs síns og vegsamaði hann, eins og hann hafði áður verið vanur að gjöra.
11 (6:12) Þá þustu þessir menn að og fundu Daníel, þar sem hann var að biðja og ákalla Guð sinn.
12 (6:13) Síðan gengu þeir inn fyrir konung og spurðu hann viðvíkjandi konungsforboðinu: "Hefir þú eigi gefið út það forboð, að hver sá maður, sem í þrjátíu daga gjörir bæn sína til nokkurs guðs eða manns, nema til þín, konungur, honum skuli varpa í ljónagryfju?" Konungur svaraði og sagði: "Það stendur fast, eftir órjúfanlegu lögmáli Meda og Persa."
13 (6:14) Þá svöruðu þeir og sögðu við konung: "Daníel, einn af hinum herleiddu Gyðingum, skeytir hvorki um þig, konungur, né um það forboð, sem þú hefir út gefið, heldur gjörir bæn sína þrem sinnum á dag."
14 (6:15) Þegar konungur heyrði þetta, féll honum það næsta þungt, og lagði hann allan hug á að frelsa Daníel, og allt til sólarlags leitaði hann alls við, að hann fengi borgið honum.
15 (6:16) Þá þustu þessir sömu menn til konungs og sögðu við hann: "Þú veist, konungur, að það eru lög hjá Medum og Persum, að ekki má raska því banni eða boði, sem konungur hefir út gefið."
16 (6:17) Þá bauð konungur að leiða Daníel fram og kasta honum í ljónagryfjuna. Og konungur tók til máls og sagði við Daníel: "Guð þinn, sem þú dýrkar án afláts, frelsi þig!"
17 (6:18) Síðan var sóttur steinn og lagður yfir gryfjumunnann, og innsiglaði konungur hann með innsiglishring sínum og með innsiglishringum stórhöfðingja sinna, til þess að sú ráðstöfun, sem gjörð hafði verið við Daníel, skyldi eigi raskast.
18 (6:19) Eftir það gekk konungur heim til hallar sinnar og var þar um nóttina fastandi. Frillur lét hann eigi leiða inn til sín, og eigi kom honum dúr á auga.
19 (6:20) Síðan reis konungur á fætur í dögun, þá er lýsa tók, og skundaði til ljónagryfjunnar.
20 (6:21) Og er hann kom að gryfjunni, kallaði hann á Daníel með sorgfullri raust. Konungur tók til máls og sagði við Daníel: "Daníel, þú þjónn hins lifanda Guðs, hefir Guð þinn, sá er þú dýrkar án afláts, megnað að frelsa þig frá ljónunum?"
21 (6:22) Þá sagði Daníel við konung: "Konungurinn lifi eilíflega!
22 (6:23) Guð minn sendi engil sinn og hann lokaði munni ljónanna, svo að þau gjörðu mér ekkert mein, af því að ég er saklaus fundinn frammi fyrir honum, og hefi ekki heldur framið neitt brot gagnvart þér, konungur!"
23 (6:24) Þá varð konungur næsta glaður og bauð að draga Daníel upp úr gryfjunni. Var Daníel þá dreginn upp úr gryfjunni, og fannst ekki að honum hefði neitt að skaða orðið, því að hann hafði treyst Guði sínum.
24 (6:25) En konungur bauð að leiða fram menn þá, er rægt höfðu Daníel, og kasta þeim, börnum þeirra og konum í ljónagryfjuna. Og áður en þeir komust til botns í gryfjunni, hremmdu ljónin þá og muldu sundur öll bein þeirra.
25 (6:26) Síðan ritaði Daríus konungur öllum lýðum, þjóðum og tungum, sem búa á allri jörðinni: "Gangi yður allt til gæfu!
26 (6:27) Ég læt þá skipun út ganga, að í öllu veldi ríkis míns skulu menn hræðast og óttast Guð Daníels, því að hann er hinn lifandi Guð og varir að eilífu. Ríki hans gengur ekki á grunn og veldi hans varir allt til enda.
27 (6:28) Hann frelsar og bjargar, hann gjörir tákn og furðuverk á himni og jörðu, hann sem frelsaði Daníel undan ljónunum."
28 (6:29) Og Daníel þessi var í miklu gengi á ríkisstjórnarárum Daríusar og á ríkisstjórnarárum Kýrusar hins persneska.