Kafla 3
1 Ég er maðurinn, sem eymd hefi reynt undir sprota reiði hans.
2 Mig hefir hann rekið og fært út í myrkur og niðdimmu.
3 Já, gegn mér snýr hann æ að nýju hendi sinni allan daginn.
4 Hann hefir tálgað af mér hold mitt og hörund, brotið sundur bein mín,
5 hlaðið hringinn í kring um mig fári og mæðu,
6 hneppt mig í myrkur eins og þá sem dánir eru fyrir löngu.
7 Hann hefir girt fyrir mig, svo að ég kemst ekki út, gjört fjötra mína þunga.
8 Þótt ég hrópi og kalli, hnekkir hann bæn minni.
9 Hann girti fyrir vegu mína með höggnum steinum, gjörði stigu mína ófæra.
10 Hann var mér eins og björn, sem situr um bráð, eins og ljón í launsátri.
11 Hann hefir leitt mig afleiðis og tætt mig sundur, hann hefir látið mig eyddan,
12 hann hefir bent boga sinn og reist mig að skotspæni fyrir örina,
13 hefir sent í nýru mín sonu örvamælis síns.
14 Ég varð öllum þjóðum að athlægi, þeim að háðkvæði liðlangan daginn.
15 Hann mettaði mig á beiskum jurtum, drykkjaði mig á malurt
16 og lét tennur mínar myljast sundur á malarsteinum, lét mig velta mér í ösku.
17 Þú sviptir sálu mína friði, ég gleymdi því góða
18 og sagði: "Horfinn er lífskraftur minn, von mín fjarri Drottni."
19 Minnstu eymdar minnar og mæðu, malurtarinnar og eitursins.
20 Sál mín hugsar stöðugt um þetta og er döpur í brjósti mér.
21 Þetta vil ég hugfesta, þess vegna vil ég vona:
22 Náð Drottins er ekki þrotin, miskunn hans ekki á enda,
23 hún er ný á hverjum morgni, mikil er trúfesti þín!
24 Drottinn er hlutdeild mín, segir sál mín, þess vegna vil ég vona á hann.
25 Góður er Drottinn þeim er á hann vona, og þeirri sál er til hans leitar.
26 Gott er að bíða hljóður eftir hjálp Drottins.
27 Gott er fyrir manninn að bera ok í æsku.
28 Hann sitji einmana og hljóður, af því að Hann hefir lagt það á hann.
29 Hann beygi munninn ofan að jörðu, vera má að enn sé von,
30 hann bjóði þeim kinnina sem slær hann, láti metta sig með smán.
31 Því að ekki útskúfar Drottinn um alla eilífð,
32 heldur miskunnar hann aftur, þegar hann hrellir, eftir sinni miklu náð.
33 Því að ekki langar hann til að þjá né hrella mannanna börn.
34 Að menn troða undir fótum alla bandingja landsins,
35 að menn halla rétti manns fyrir augliti hins Hæsta,
36 að menn beita mann ranglæti í máli hans, - skyldi Drottinn ekki sjá það?
37 Hver er sá er talaði, og það varð, án þess að Drottinn hafi boðið það?
38 Fram gengur ekki af munni hins Hæsta bæði hamingja og óhamingja?
39 Hví andvarpar maðurinn alla ævi? Hver andvarpi yfir eigin syndum!
40 Rannsökum breytni vora og prófum og snúum oss til Drottins.
41 Fórnum hjarta voru og höndum til Guðs í himninum.
42 Vér höfum syndgað og verið óhlýðnir, þú hefir ekki fyrirgefið,
43 þú hefir hulið þig í reiði og ofsótt oss, myrt vægðarlaust,
44 þú hefir hulið þig í skýi, svo að engin bæn kemst í gegn.
45 Þú gjörðir oss að afhraki og viðbjóð mitt á meðal þjóðanna.
46 Yfir oss glenntu upp ginið allir óvinir vorir.
47 Geigur og gildra urðu hlutskipti vort, eyðing og tortíming.
48 Táralækir streyma af augum mér út af tortíming þjóðar minnar.
49 Hvíldarlaust fljóta augu mín í tárum, án þess að hlé verði á,
50 uns niður lítur og á horfir Drottinn af himnum.
51 Auga mitt veldur sál minni kvöl, vegna allra dætra borgar minnar.
52 Með ákefð eltu mig, eins og fugl, þeir er voru óvinir mínir án saka.
53 Þeir gjörðu því nær út af við mig í gryfju og köstuðu steinum á mig.
54 Vatn flóði yfir höfuð mitt, ég hugsaði: "Ég er frá."
55 Ég hrópaði á nafn þitt, Drottinn, úr hyldýpi gryfjunnar.
56 Þú heyrðir hróp mitt: "Byrg ekki eyra þitt, kom mér til fróunar, kom mér til hjálpar."
57 Þú varst nálægur, þá er ég hrópaði til þín, sagðir: "Óttastu ekki!"
58 Þú varðir, Drottinn, mál mitt, leystir líf mitt.
59 Þú hefir, Drottinn, séð undirokun mína, rétt þú hluta minn!
60 Þú hefir séð alla hefnigirni þeirra, allt ráðabrugg þeirra gegn mér,
61 þú hefir heyrt smánanir þeirra, Drottinn, allt ráðabrugg þeirra í gegn mér,
62 skraf mótstöðumanna minna og hinar stöðugu ráðagjörðir þeirra gegn mér.
63 Lít þú á, hvort sem þeir sitja eða standa, þá er ég háðkvæði þeirra.
64 Þú munt endurgjalda þeim, Drottinn, eins og þeir hafa til unnið.
65 Þú munt leggja hulu yfir hjarta þeirra, bölvan þín komi yfir þá.
66 Þú munt ofsækja þá í reiði og afmá þá undan himni Drottins.