Kafla 15
1 Spádómur um Móab. Já, á náttarþeli verður Ar í Móab unnin og gjöreydd! Já, á náttarþeli verður Kír í Móab unnin og gjöreydd!
2 Íbúar Díbon stíga upp á hæðirnar til að gráta. Móab kveinar á Nebó og í Medeba. Hvert höfuð er sköllótt, allt skegg af rakað.
3 Á strætunum eru þeir gyrtir hærusekk. Uppi á þökunum og á torgunum kveina þeir allir, fljótandi í tárum.
4 Íbúar Hesbon og Eleale hljóða svo hátt, að það heyrist til Jahas. Þess vegna æpa hermennirnir í Móab, þeim er horfinn hugur.
5 Hjarta mitt kveinar yfir Móab, flóttamenn þeirra flýja til Sóar, til Eglat Selisía. Grátandi ganga þeir upp stíginn hjá Lúkít. Á veginum til Hórónaím hefja þeir neyðarkvein tortímingarinnar.
6 Nimrímvötn eru orðin að öræfum, því að grasið skrælnar, jurtirnar eyðast, allt grængresi hverfur.
7 Fyrir því bera þeir það, sem þeir hafa dregið saman, og það, sem þeir hafa geymt, yfir Pílviðará.
8 Neyðarkveinið gengur yfir gjörvallt Móabsland. Hljóðin berast allt til Eglaím, hljóðin berast allt til Beer Elím.
9 Vötn Dímonar eru full af blóði. Já, enn vil ég leggja meira á Dímon: Ljón fyrir þá, sem undan komast frá Móab, og fyrir þá, sem eftir verða í landinu.