Kafla 1
1 Það bar til á dögum Ahasverusar - það er Ahasverusar þess, er ríkti frá Indlandi til Blálands yfir hundrað tuttugu og sjö skattlöndum -
2 í þá daga er Ahasverus konungur sat á konungsstóli sínum í borginni Súsa,
3 á þriðja ríkisári hans, að hann hélt veislu öllum höfðingjum sínum og þjónum. Sátu þá hershöfðingjarnir í Persíu og Medíu, tignarmennirnir og skattlandstjórarnir í boði hans.
4 Sýndi hann þá auðæfi síns veglega konungdóms og dýrðarskraut tignar sinnar í marga daga - hundrað og áttatíu daga.
5 Og er þessir dagar voru liðnir, hélt konungur veislu öllu fólki, sem var í borginni Súsa, bæði háum og lágum, í sjö daga, í forgarðinum að hallargarði konungs.
6 Þar héngu hvítir baðmullardúkar og purpurabláir, festir með snúrum af býssus og rauðum purpura í silfurhringa og á marmarasúlum, legubekkirnir voru úr gulli og silfri, á gólfi lögðu alabastri, hvítum marmara, perlumóðursteini og svörtum marmara.
7 En drykkir voru inn bornir í gullkerum, og voru hver kerin öðrum ólík, og þar var gnægð konunglegs víns, eins og konunglegu örlæti sómir.
8 Og drykkjan fór fram eftir því fyrirmæli, að enginn skyldi halda drykk að mönnum, því að konungur hafði lagt svo fyrir alla frammistöðumenn í höll sinni, að þeir skyldu svo gjöra sem hverjum manni þóknaðist.
9 Vastí drottning hélt og konum veislu í konunglegri höll, er Ahasverus konungur átti.
10 En á sjöunda degi, þá er konungur var hreifur af víni, bauð hann Mehúman, Bista, Harbóna, Bigta og Abagta, Setar og Karkas, þeim sjö hirðmönnum, er þjónuðu Ahasverusi konungi,
11 að sækja Vastí drottningu og leiða hana inn fyrir konung með konunglega kórónu á höfði, til þess að hann gæti sýnt þjóðunum og höfðingjunum fegurð hennar, því að hún var fríð sýnum.
12 En Vastí drottning vildi ekki koma eftir boði konungs, er hirðmennirnir fluttu. Þá reiddist konungur ákaflega, og heiftin brann honum í brjósti.
13 Og konungur sagði við vitringana, sem þekktu tímana - því að þannig voru orð konungs lögð fyrir alla þá, er þekktu lög og rétt,
14 og þeir, sem stóðu honum næstir, voru Karsena, Setar, Admata, Tarsis, Meres, Marsena og Memúkan, sjö höfðingjar Persa og Meda, er litu auglit konungs og höfðu æðstu sætin í ríkinu -:
15 "Hverjum dómi skal Vastí drottning sæta að lögum fyrir það, að hún hlýddi eigi orðsending Ahasverusar konungs, þeirri er hirðmennirnir fluttu?"
16 Þá sagði Memúkan í áheyrn konungs og höfðingjanna: "Vastí drottning hefir ekki einungis brotið á móti konunginum, heldur einnig á móti öllum höfðingjunum og öllum þjóðunum, sem búa í öllum skattlöndum Ahasverusar konungs.
17 Því að athæfi drottningar mun berast út til allra kvenna og gjöra eiginmenn þeirra fyrirlitlega í augum þeirra, er sagt verður: ,Ahasverus konungur bauð að leiða Vastí drottningu fyrir sig, en hún kom ekki.'
18 Og þegar í dag munu hefðarfrúr Persa og Meda, þær er frétt hafa athæfi drottningar, segja þetta öllum höfðingjum konungs, og mun það valda fullnógri fyrirlitningu og reiði.
19 Ef konungi þóknast svo, þá láti hann konunglegt boð út ganga og sé það ritað í lög Persa og Meda, svo að því verði ekki breytt, að Vastí skuli ekki framar koma fyrir auglit Ahasverusar konungs, og konunglega tign hennar gefi konungur annarri, sem er betri en hún.
20 Þegar nú úrskurður konungs, er hann kveður upp, verður kunnur um allt ríki hans, sem er mjög stórt, þá munu allar konur sýna mönnum sínum virðingu, bæði háum og lágum."
21 Þessi tillaga geðjaðist bæði konunginum og höfðingjunum, og konungur fór að ráðum Memúkans.
22 Og hann sendi bréf til allra skattlanda konungs, í sérhvert land eftir skrift þess lands og til sérhverrar þjóðar á hennar tungu, að hver maður skyldi vera húsbóndi á sínu heimili og mæla allt það, er honum líkaði.