Nehemíabók

Kafla: 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13


Kafla 2

1 Í nísanmánuði á tuttugasta ríkisári Artahsasta konungs, þá er vín stóð fyrir framan konung, tók ég vínið og rétti að honum, án þess að láta á því bera við hann, hve illa lá á mér.
2 En konungur sagði við mig: "Hví ert þú svo dapur í bragði, þar sem þú ert þó ekki sjúkur? Það hlýtur að liggja illa á þér." Þá varð ég ákaflega hræddur.
3 Og ég sagði við konung: "Konungurinn lifi eilíflega! Hví skyldi ég ekki vera dapur í bragði, þar sem borgin, er geymir grafir forfeðra minna, er í eyði lögð og hlið hennar í eldi brennd?"
4 Þá sagði konungur við mig: "Hvers beiðist þú þá?" Þá gjörði ég bæn mína til Guðs himnanna;
5 síðan mælti ég til konungs: "Ef konungi þóknast svo og ef þú telur þjón þinn til þess færan, þá send mig til Júda, til borgar þeirrar, er geymir grafir forfeðra minna, til þess að ég endurreisi hana."
6 Konungur mælti til mín - en drottning sat við hlið honum: "Hversu lengi mun ferð þín standa yfir, og hvenær kemur þú aftur?" Og konungi þóknaðist að senda mig, og ég tiltók ákveðinn tíma við hann.
7 Og ég sagði við konung: "Ef konunginum þóknast svo, þá lát fá mér bréf til landstjóranna í héraðinu hinumegin Fljóts, til þess að þeir leyfi mér að fara um lönd sín, þar til er ég kem til Júda,
8 og bréf til Asafs, skógarvarðar konungsins, til þess að hann láti mig fá við til þess að gjöra af bjálka í hlið kastalans, er heyrir til musterisins, og til borgarmúranna og til hússins, er ég mun fara í." Og konungur veitti mér það, með því að hönd Guðs míns hvíldi náðarsamlega yfir mér.
9 Og er ég kom til landstjóranna í héraðinu hinumegin Fljóts, þá fékk ég þeim bréf konungs. Konungur sendi og með mér höfuðsmenn og riddara.
10 En er Sanballat Hóroníti og Tobía þjónn, Ammónítinn, spurðu það, gramdist þeim það mikillega, að kominn skyldi vera maður til að annast hagsmuni Ísraelsmanna.
11 Og ég kom til Jerúsalem, og er ég hafði verið þar þrjá daga,
12 fór ég á fætur um nótt og fáeinir menn með mér, án þess að hafa sagt nokkrum manni frá því, er Guð minn blés mér í brjóst að gjöra fyrir Jerúsalem, og án þess að nokkur skepna væri með mér, nema skepnan, sem ég reið.
13 Og ég fór út um Dalshliðið um nóttina og í áttina til Drekalindar og Mykjuhliðs, og ég skoðaði múra Jerúsalem, hversu þeir voru rifnir niður og hlið hennar í eldi brennd.
14 Síðan hélt ég áfram til Lindarhliðs og Konungstjarnar. Þá var skepnunni ekki lengur fært að komast áfram undir mér.
15 Gekk ég þá upp í dalinn um nóttina og skoðaði múrinn. Síðan kom ég aftur inn um Dalshliðið og sneri heim.
16 En yfirmennirnir vissu ekki, hvert ég hafði farið né hvað ég ætlaði að gjöra, með því að ég hafði enn ekki neitt sagt Gyðingum né prestunum né tignarmönnunum né yfirmönnunum né öðrum þeim, er að verkinu unnu.
17 Og ég sagði nú við þá: "Þér sjáið, hversu illa vér erum staddir, þar sem Jerúsalem er í eyði lögð og hlið hennar í eldi brennd. Komið, vér skulum endurreisa múra Jerúsalem, svo að vér verðum ekki lengur hafðir að spotti."
18 Og ég sagði þeim, hversu náðarsamlega hönd Guðs míns hefði hvílt yfir mér, svo og orð konungs, þau er hann talaði til mín. Þá sögðu þeir: "Vér viljum fara til og byggja!" Og þeir styrktu hendur sínar til hins góða verksins.
19 En er Sanballat Hóroníti og Tobía þjónn, Ammónítinn, og Gesem Arabi spurðu þetta, gjörðu þeir gys að oss, sýndu oss fyrirlitningu og sögðu: "Hvað er þetta, sem þér hafið fyrir stafni? Ætlið þér að gjöra uppreisn móti konunginum?"
20 En ég svaraði þeim og sagði við þá: "Guð himnanna, hann mun láta oss takast þetta, en vér þjónar hans munum fara til og byggja. En þér eigið enga hlutdeild né rétt né minning í Jerúsalem."