Fyrri kroníkubók

Kafla: 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 14 15 16 17 18 19 20 21 22 23 24 25 26 27 28 29


Kafla 21

1 Satan hófst í gegn Ísrael og egndi Davíð til þess að telja Ísrael.
2 Þá mælti Davíð við Jóab og höfðingja lýðsins: "Farið og teljið Ísrael frá Beerseba til Dan og látið mig vita það, svo að ég fái að vita tölu á þeim."
3 Jóab svaraði: "Drottinn margfaldi lýðinn - hversu margir sem þeir nú kunna að vera - hundrað sinnum. Þeir eru þó, minn herra konungur, allir þjónar herra míns. Hví æskir herra minn þessa? Hvers vegna á það að verða Ísrael til áfellis?"
4 En Jóab mátti eigi gjöra annað en það, sem konungur bauð. Lagði Jóab þá af stað og fór um allan Ísrael og kom síðan aftur til Jerúsalem.
5 Og Jóab sagði Davíð töluna, er komið hafði út við manntalið: Í öllum Ísrael voru ein milljón og hundrað þúsundir vopnaðra manna, og í Júda fjögur hundruð og sjötíu þúsundir vopnaðra manna.
6 En Leví og Benjamín taldi hann eigi, því að Jóab hraus hugur við skipun konungs.
7 En þetta verk var illt í augum Guðs, og laust hann Ísrael.
8 Þá sagði Davíð við Guð: "Mjög hefi ég syndgað, er ég framdi þetta verk, en nú, tak þú burt misgjörð þjóns þíns, því að mjög óviturlega hefir mér til tekist."
9 En Drottinn talaði til Gaðs, sjáanda Davíðs, á þessa leið:
10 "Far þú og mæl svo við Davíð: Svo segir Drottinn: Þrjá kosti set ég þér, kjós einn af þeim, og mun ég svo við þig gjöra."
11 Þá gekk Gað til Davíðs og sagði við hann: "Svo segir Drottinn: Kjós þér,
12 annaðhvort að hungur verði í þrjú ár, eða að þú verðir að flýja í þrjá mánuði fyrir óvinum þínum og sverð fjandmanna þinna nái þér, eða að sverð Drottins og drepsótt geisi í landinu í þrjá daga og engill Drottins valdi eyðingu í öllu Ísraelslandi. Hygg nú að, hverju ég eigi að svara þeim, er sendi mig."
13 Davíð svaraði Gað: "Ég er í miklum nauðum staddur. Falli ég þá í hendur Drottins, því að mikil er miskunn hans, en í manna hendur vil ég ekki falla."
14 Drottinn lét þá drepsótt koma í Ísrael, og féllu sjötíu þúsundir manns af Ísrael.
15 Og Guð sendi engil til Jerúsalem til þess að eyða hana, og er hann var að eyða hana, leit Drottinn til og hann iðraði hins illa, og sagði við engilinn, er eyddi fólkinu: "Nóg er að gjört! Drag nú að þér höndina!" En engill Drottins var þá hjá þreskivelli Ornans Jebúsíta.
16 Og Davíð hóf upp augu sín og sá engil Drottins standa milli himins og jarðar með brugðið sverð í hendi, er hann beindi gegn Jerúsalem. Þá féll Davíð og öldungarnir fram á andlit sér, klæddir hærusekkjum.
17 Og Davíð sagði við Guð: "Var það eigi ég, er bauð að telja fólkið? Það er ég, sem hefi syndgað og breytt mjög illa, en þetta er hjörð mín, - hvað hefir hún gjört? Drottinn, Guð minn, lát hönd þína leggjast á mig og ættmenn mína, en eigi á lýð þinn til þess að valda mannhruni."
18 En engill Drottins bauð Gað að segja Davíð, að Davíð skyldi fara upp eftir til þess að reisa Drottni altari á þreskivelli Ornans Jebúsíta.
19 Og Davíð fór upp eftir að boði Gaðs, því er hann hafði talað í nafni Drottins.
20 Og er Ornan sneri sér við, sá hann konung koma og fjóra sonu hans með honum, en Ornan var að þreskja hveiti.
21 Og er Davíð kom til Ornans, leit Ornan upp og sá Davíð. Gekk hann þá út af þreskivellinum og laut á ásjónu sína til jarðar fyrir Davíð.
22 Þá mælti Davíð við Ornan: "Lát þú þreskivöllinn af hendi við mig, svo að ég geti reist Drottni þar altari - skalt þú selja mér það fullu verði - og plágunni megi létta af lýðnum."
23 Ornan svaraði Davíð: "Tak þú það. Minn herra konungurinn gjöri sem honum þóknast. Sjá, ég gef nautin til brennifórnar og þreskisleðana til eldiviðar og hveitið til matfórnar, allt gef ég það."
24 En Davíð konungur sagði við Ornan: "Eigi svo, en kaupa vil ég það fullu verði, því að eigi vil ég taka það sem þitt er Drottni til handa og færa brennifórn, er ég hefi kauplaust þegið."
25 Síðan greiddi Davíð Ornan sex hundruð sikla gulls fyrir völlinn.
26 Og Davíð reisti Drottni þar altari og fórnaði brennifórnum og heillafórnum, og er hann ákallaði Drottin, svaraði hann honum með því að senda eld af himnum á brennifórnaraltarið.
27 Og Drottinn bauð englinum að slíðra sverð sitt.
28 Þá er Davíð sá, að Drottinn svaraði honum á þreskivelli Ornans Jebúsíta, þá færði hann þar fórnir.
29 En bústaður Drottins, er Móse hafði gjört í eyðimörkinni, og brennifórnaraltarið voru um það leyti á hæðinni í Gíbeon.
30 En Davíð gat eigi gengið fram fyrir það til þess að leita Guðs, því að hann var hræddur við sverð engils Drottins.