Kafla 17
1 Á tólfta ríkisári Akasar Júdakonungs varð Hósea Elason konungur í Samaríu yfir Ísrael og ríkti níu ár.
2 Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins, þó ekki eins og Ísraelskonungar þeir, er verið höfðu á undan honum.
3 Salmaneser Assýríukonungur fór herför í móti honum, og varð Hósea lýðskyldur honum og galt honum skatt.
4 En er Assýríukonungur varð þess var, að Hósea bjó yfir svikum við hann, þar sem hann gjörði menn á fund Só Egyptalandskonungs og greiddi Assýríukonungi eigi framar árlega skattinn, eins og verið hafði, þá tók Assýríukonungur hann höndum og lét fjötra hann í dýflissu.
5 Og Assýríukonungur herjaði landið allt og fór til Samaríu og sat um hana í þrjú ár.
6 En á níunda ríkisári Hósea vann Assýríukonungur Samaríu og herleiddi Ísrael til Assýríu. Fékk hann þeim bústað í Hala og við Habór, fljótið í Gósan, og í borgum Meda.
7 Þannig fór, af því að Ísraelsmenn höfðu syndgað gegn Drottni, Guði sínum, þeim er leiddi þá út af Egyptalandi, undan valdi Faraós Egyptalandskonungs, og dýrkað aðra guði.
8 Þeir fóru og að siðum þeirra þjóða, er Drottinn hafði stökkt burt undan Ísraelsmönnum, og að siðum Ísraelskonunga, er þeir sjálfir höfðu sett.
9 Þá gjörðu og Ísraelsmenn það, er rangt var gagnvart Drottni, Guði þeirra, og byggðu sér fórnarhæðir í öllum borgum sínum, jafnt varðmannaturnum sem víggirtum borgum.
10 Þeir reistu sér merkissteina og asérur á öllum háum hólum og undir hverju grænu tré
11 og fórnuðu þar reykelsisfórnum á öllum hæðum eins og þjóðirnar, er Drottinn hafði rekið burt undan þeim. Aðhöfðust þeir það sem illt var og egndu Drottin til reiði.
12 Og þeir dýrkuðu skurðgoð, er Drottinn hafði sagt um við þá: ,Þér skuluð eigi gjöra slíkt.'
13 Og þó hafði Drottinn aðvarað Ísrael og Júda fyrir munn allra spámannanna, allra sjáandanna, og sagt: ,Snúið aftur frá yðar vondu vegum og varðveitið skipanir mínar og boðorð í öllum greinum samkvæmt lögmálinu, er ég lagði fyrir feður yðar, og því er ég bauð yður fyrir munn þjóna minna, spámannanna.'
14 En þeir hlýddu ekki, heldur þverskölluðust eins og feður þeirra, er eigi treystu Drottni, Guði sínum.
15 Þeir virtu að vettugi lög hans og sáttmála, þann er hann hafði gjört við feður þeirra, og boðorð hans, þau er hann hafði fyrir þá lagt, og eltu fánýt goð og breyttu heimskulega að dæmi þjóðanna, er umhverfis þá voru, þótt Drottinn hefði bannað þeim að breyta eftir þeim.
16 Þeir yfirgáfu öll boð Drottins, Guðs síns, og gjörðu sér steypt líkneski, tvo kálfa, og þeir gjörðu asérur, féllu fram fyrir öllum himinsins her og dýrkuðu Baal.
17 Þeir létu sonu sína og dætur ganga gegnum eldinn, fóru með galdur og fjölkynngi og ofurseldu sig til að gjöra það, sem illt var í augum Drottins, til þess að egna hann til reiði.
18 Þá reiddist Drottinn Ísrael ákaflega og rak þá burt frá augliti sínu. Ekkert varð eftir nema Júdaættkvísl ein.
19 Júdamenn héldu ekki heldur boðorð Drottins, Guðs síns. Þeir fóru að siðum Ísraelsmanna, er þeir sjálfir höfðu sett.
20 Fyrir því hafnaði Drottinn öllu Ísraels kyni og auðmýkti þá og gaf þá í hendur ræningjum, þar til er hann útskúfaði þeim frá augliti sínu.
21 Þegar Drottinn hafði slitið Ísrael frá ætt Davíðs og þeir höfðu tekið Jeróbóam Nebatsson til konungs, þá tældi Jeróbóam Ísrael til að snúa sér frá Drottni og kom þeim til að drýgja mikla synd.
22 Og Ísraelsmenn drýgðu allar sömu syndirnar, sem Jeróbóam hafði drýgt. Þeir létu eigi af þeim,
23 þar til er Drottinn rak Ísrael burt frá augliti sínu, eins og hann hafði sagt fyrir munn allra þjóna sinna, spámannanna. Þannig var Ísrael herleiddur burt úr landi sínu til Assýríu og hefir verið þar fram á þennan dag.
24 Assýríukonungur flutti inn fólk frá Babýloníu, frá Kúta, frá Ava, frá Hamat og frá Sefarvaím og lét það setjast að í borgum Samaríu í stað Ísraelsmanna. Tóku þeir Samaríu til eignar og settust að í borgum hennar.
25 En með því að þeir dýrkuðu ekki Drottin, fyrst eftir að þeir voru sestir þar að, þá sendi Drottinn ljón meðal þeirra. Ollu þau manntjóni meðal þeirra.
26 Þá sögðu menn svo við Assýríukonung: "Þjóðirnar, er þú fluttir burt og lést setjast að í borgum Samaríu, vita eigi, hver dýrkun landsguðnum ber. Fyrir því hefir hann sent ljón meðal þeirra, og sjá, þau deyða þá, af því að þeir vita ekki, hvað landsguðnum ber."
27 Þá skipaði Assýríukonungur svo fyrir: "Látið einn af prestunum fara þangað, þeim er ég flutti burt þaðan, að hann fari og setjist þar að og kenni þeim, hver dýrkun landsguðnum ber."
28 Þá kom einn af prestunum, þeim er þeir höfðu flutt burt úr Samaríu, og settist að í Betel. Hann kenndi þeim, hvernig þeir ættu að dýrka Drottin.
29 Samverjar gjörðu sér sína guði, hver þjóðflokkur út af fyrir sig, og settu þá í hæðahofin, er þeir höfðu reist, hver þjóðflokkur út af fyrir sig í sínum borgum, þeim er þeir bjuggu í.
30 Babýloníumenn gjörðu líkneski af Súkkót Benót, Kútmenn gjörðu líkneski af Nergal, Hamatmenn gjörðu líkneski af Asíma,
31 Avítar gjörðu líkneski af Nibkas og Tartak, en Sefarvítar brenndu börn sín til handa Adrammelek og Anammelek, Sefarvaím-guðum.
32 Þeir dýrkuðu einnig Drottin og gjörðu menn úr sínum hóp að hæðaprestum. Báru þeir fram fórnir fyrir þá í hæðahofunum.
33 Þannig dýrkuðu þeir Drottin, en þjónuðu einnig sínum guðum að sið þeirra þjóða, er þeir höfðu verið fluttir frá.
34 Fram á þennan dag fara þeir að fornum siðum. Þeir dýrka ekki Drottin og breyta ekki eftir lögum hans og ákvæðum og lögmáli því og boðorði, er Drottinn lagði fyrir sonu Jakobs, þess er hann gaf nafnið Ísrael.
35 En Drottinn hafði gjört sáttmála við þá og boðið þeim á þessa leið: ,Þér skuluð eigi dýrka neina aðra guði, eigi falla fram fyrir þeim, eigi þjóna þeim né færa þeim fórnir,
36 en Drottin, sem leiddi yður af Egyptalandi með miklum mætti og útréttum armlegg - hann skuluð þér dýrka, fyrir honum skuluð þér falla fram og honum skuluð þér fórnir færa.
37 En lög þau og ákvæði, lögmál og boðorð, er hann hefir ritað handa yður, skuluð þér varðveita, svo að þér haldið þau alla daga, og þér skuluð eigi dýrka aðra guði.
38 Og sáttmálanum, er ég hefi við yður gjört, skuluð þér ekki gleyma, og þér skuluð eigi dýrka aðra guði,
39 en Drottin, Guð yðar, skuluð þér dýrka, og mun hann þá frelsa yður af hendi allra óvina yðar.'
40 Samt hlýddu þeir ekki, heldur fóru þeir að fornum siðum.
41 Þannig dýrkuðu þá þessar þjóðir Drottin, en þjónuðu þó um leið skurðgoðum sínum. Börn þeirra og barnabörn breyta og enn í dag eins og feður þeirra breyttu.