Fyrri konungabók

Kafla: 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 14 15 16 17 18 19 20 21 22


Kafla 5

1 Híram konungur í Týrus sendi þjóna sína til Salómons, því hann hafði heyrt að hann hefði verið smurður til konungs í stað föður síns, en Híram hafði ætíð verið góðvinur Davíðs.
2 Og Salómon sendi boð til Hírams og lét segja honum:
3 "Þú veist sjálfur, að Davíð faðir minn mátti eigi reisa hús nafni Drottins, Guðs síns, vegna ófriðar þess, er hann varð að eiga í á allar hliðar, uns Drottinn lagði óvini hans undir iljar honum.
4 En nú hefir Drottinn, Guð minn, veitt mér frið allt umhverfis. Á ég engan mótstöðumann og ekkert er framar að meini.
5 Fyrir því hefi ég í hyggju að reisa hús nafni Drottins, Guðs míns, eins og Drottinn sagði við Davíð, föður minn, er hann mælti: ,Sonur þinn, er ég set í hásæti þitt í þinn stað, hann skal reisa hús mínu nafni.'
6 Bjóð því nú að höggva sedrustré á Líbanon handa mér, og þjónar mínir skulu vera með þínum þjónum. Skal ég greiða þér kaup fyrir þjóna þína, slíkt er þú sjálfur tiltekur. Því að þú veist sjálfur, að með oss er enginn maður, er kunni að skógarhöggi sem Sídoningar."
7 Þegar Híram heyrði orðsending Salómons, varð hann harla glaður og sagði: "Lofaður sé Drottinn í dag, er gefið hefir Davíð vitran son til að ríkja yfir þessari fjölmennu þjóð."
8 Og Híram sendi menn til Salómons og lét segja honum: "Ég hefi heyrt þá orðsending, er þú gjörðir mér. Skal ég gjöra að ósk þinni um sedrusviðinn og kýpresviðinn.
9 Mínir menn skulu flytja viðinn ofan frá Líbanon til sjávar, og ég skal láta leggja hann í flota í sjónum og flytja þangað sem þú segir til um. Þar læt ég taka sundur flotana, en þú lætur sækja. En þú skalt gjöra að ósk minni og láta mig fá vistir handa hirð minni."
10 Og Híram lét Salómon fá eins mikið af sedrusviði og kýpresviði og hann vildi.
11 En Salómon lét Híram fá tuttugu þúsund kór af hveiti til matar fyrir hirð hans og tuttugu þúsund bat af olíu úr steyttum olífuberjum. Þetta lét Salómon Híram fá á ári hverju.
12 Og Drottinn hafði veitt Salómon speki, eins og hann hafði heitið honum. Og það fór vel á með þeim Híram og Salómon, og þeir gjörðu sáttmála sín á milli.
13 Salómon konungur bauð út kvaðarmönnum úr öllum Ísrael, og urðu kvaðarmennirnir þrjátíu þúsundir að tölu.
14 Og hann sendi þá til skiptis til Líbanon, tíu þúsundir á mánuði hverjum. Skyldu þeir vera einn mánuð á Líbanon, en tvo mánuði heima hjá sér. Adóníram var yfir kvaðarmönnum.
15 Og Salómon hafði sjötíu þúsund burðarmenn og áttatíu þúsund steinhöggvara í fjöllunum,
16 auk yfirfógeta Salómons, er fyrir verkinu stóðu, þrjú þúsund og þrjú hundruð að tölu. Skyldu þeir hafa umsjón með þeim mönnum, er verkið unnu.
17 Og að boði konungs hjuggu þeir stóra steina, úthöggna steina, til þess að byggja musterisgrunninn úr höggnu grjóti.
18 Og smiðir Salómons og Hírams og Gíblítar hjuggu þá til, undirbjuggu viðinn og steinana til þess að reisa musterið.