Kafla 19
1 Drottinn talaði við Móse og sagði:
2 "Tala þú til alls safnaðar Ísraelsmanna og seg við þá: Þér skuluð vera heilagir, því að ég, Drottinn, Guð yðar, er heilagur.
3 Sérhver óttist móður sína og föður sinn og haldi hvíldardaga mína. Ég er Drottinn, Guð yðar.
4 Snúið yður eigi til falsguða og gjörið yður eigi steypta guði. Ég er Drottinn, Guð yðar.
5 Er þér slátrið heillafórn Drottni til handa, þá slátrið henni þannig, að hún afli yður velþóknunar.
6 Skal eta hana daginn, sem þér fórnið henni, og daginn eftir, en það, sem leift er til þriðja dags, skal brenna í eldi.
7 En sé þó etið af því á þriðja degi, þá skal það talið skemmt kjöt. Það mun eigi verða velþóknanlegt.
8 Og hver, sem etur það, bakar sér sekt, því að hann hefir vanhelgað það sem helgað er Drottni, og sá maður skal upprættur verða úr þjóð sinni.
9 Er þér skerið upp jarðargróður yðar, þá skalt þú eigi skera akur þinn út í hvert horn, né heldur skalt þú tína eftirtíning uppskeru þinnar.
10 Og eigi skalt þú gjörtína víngarð þinn, né heldur tína upp niður fallin ber í víngarði þínum. Þú skalt skilja það eftir handa fátækum og útlendingum. Ég er Drottinn, Guð yðar.
11 Þér skuluð eigi stela, eigi svíkja, né heldur ljúga hver að öðrum.
12 Þér skuluð eigi sverja ranglega við nafn mitt, svo að þú vanhelgir nafn Guðs þíns. Ég er Drottinn.
13 Þú skalt eigi beita náunga þinn ofríki, né ræna hann, og kaup daglaunamanns skal eigi vera hjá þér náttlangt til morguns.
14 Þú skalt ekki bölva daufum manni, né leggja fótakefli fyrir blindan mann, heldur skalt þú óttast Guð þinn. Ég er Drottinn.
15 Eigi skuluð þér ranglæti fremja í dómi. Þú skalt eigi draga taum lítilmagnans, né heldur vera hliðdrægur hinum volduga. Með réttvísi skalt þú dæma náunga þinn.
16 Þú skalt eigi ganga um sem rógberi meðal fólks þíns og eigi krefjast blóðs náunga þíns. Ég er Drottinn.
17 Þú skalt ekki hata bróður þinn í hjarta þínu. Einarðlega skalt þú ávíta náunga þinn, að þú eigi bakir þér synd hans vegna.
18 Eigi skalt þú hefnisamur vera né langrækinn við samlanda þína, en þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Ég er Drottinn.
19 Þér skuluð varðveita setningar mínar. Þú skalt eigi láta tvær tegundir fénaðar þíns eiga samlag, þú skalt eigi sá akur þinn tvenns konar sæði og eigi skalt þú bera klæði, sem ofin eru af tvenns konar efni.
20 Nú hefir einhver holdlegt samræði við konu, og sé hún ambátt manni föstnuð, en hvorki leysingi né frelsingi, þá liggur refsing við. Eigi skal lífláta þau, fyrir því að hún var eigi frelsingi.
21 En hann skal færa Drottni sektarfórn sína að dyrum samfundatjaldsins, hrút í sektarfórn.
22 Og presturinn skal friðþægja fyrir hann með sektarfórnarhrútnum frammi fyrir Drottni vegna syndar hans, sem hann hefir drýgt. Og honum mun fyrirgefin verða synd hans, sem hann hefir drýgt.
23 Er þér komið inn í landið og gróðursetjið alls konar aldintré, þá skuluð þér telja aldinin á þeim sem yfirhúð þeirra. Þrjú ár skuluð þér halda þau fyrir óumskorin; eigi skal neyta þeirra.
24 Fjórða árið skulu öll aldin þeirra vera helguð Drottni til lofgjörðar,
25 en fimmta árið skuluð þér eta aldin þeirra, svo að þau veiti yður því meiri arð. Ég er Drottinn, Guð yðar.
26 Þér skuluð ekkert með blóði eta. Þér skuluð eigi fara með spár né fjölkynngi.
27 Þér skuluð eigi kringluskera höfuð yðar, né heldur skalt þú skerða skeggrönd þína.
28 Og þér skuluð eigi skera skurði í hold yðar fyrir sakir dauðs manns, né heldur gjöra hörundsflúr á yður. Ég er Drottinn.
29 Vanhelga eigi dóttur þína með því að halda henni til saurlifnaðar, að eigi drýgi landið hór og landið fyllist óhæfu.
30 Þér skuluð halda hvíldardaga mína og bera lotningu fyrir helgidómi mínum. Ég er Drottinn.
31 Leitið eigi til særingaranda né spásagnaranda, farið eigi til frétta við þá, svo að þér saurgist ekki af þeim. Ég er Drottinn, Guð yðar.
32 Þú skalt standa upp fyrir hinum gráhærða og heiðra gamalmennið, og þú skalt óttast Guð þinn. Ég er Drottinn.
33 Ef útlendur maður býr hjá þér í landi yðar, þá skuluð þér eigi sýna honum ójöfnuð.
34 Útlendan mann, sem hjá yður býr, skuluð þér svo með fara sem innborinn mann meðal yðar, og þú skalt elska hann eins og sjálfan þig, því að þér voruð útlendingar í Egyptalandi. Ég er Drottinn, Guð yðar.
35 Eigi skuluð þér ranglæti fremja í dómi, stiku, vigt og mæli.
36 Þér skuluð hafa réttar vogir, rétta vogarsteina, rétta efu og rétta hín. Ég er Drottinn, Guð yðar, sem leiddi yður út af Egyptalandi.
37 Og þér skuluð varðveita allar setningar mínar og öll lög mín og halda þau. Ég er Drottinn."