Kafla 31
1 Nú frétti Jakob svofelld ummæli Labans sona: "Jakob hefir dregið undir sig aleigu föður vors, og af eigum föður vors hefir hann aflað sér allra þessara auðæfa."
2 Og Jakob sá á yfirbragði Labans, að hann bar ekki sama þel til sín sem áður.
3 Þá sagði Drottinn við Jakob: "Hverf heim aftur í land feðra þinna og til ættfólks þíns, og ég mun vera með þér."
4 Þá sendi Jakob og lét kalla þær Rakel og Leu út í hagann, þangað sem hjörð hans var.
5 Og hann sagði við þær: "Ég sé á yfirbragði föður ykkar, að hann ber ekki sama þel til mín sem áður; en Guð föður míns hefir verið með mér.
6 Og það vitið þið sjálfar, að ég hefi þjónað föður ykkar af öllu mínu megni.
7 En faðir ykkar hefir svikið mig og tíu sinnum breytt kaupi mínu, en Guð hefir ekki leyft honum að gjöra mér mein.
8 Þegar hann sagði: ,Hið flekkótta skal vera kaup þitt,' - fæddi öll hjörðin flekkótt, og þegar hann sagði: ,Hið rílótta skal vera kaup þitt,' - þá fæddi öll hjörðin rílótt.
9 Og þannig hefir Guð tekið fénaðinn frá föður ykkar og gefið mér hann.
10 Og um fengitíma hjarðarinnar hóf ég upp augu mín og sá í draumi, að hafrarnir, sem hlupu á féð, voru rílóttir, flekkóttir og dílóttir.
11 Og engill Guðs sagði við mig í draumnum: ,Jakob!' Og ég svaraði: ,Hér er ég.'
12 Þá mælti hann: ,Lít upp augum þínum og horfðu á: Allir hafrarnir, sem hlaupa á féð, eru rílóttir, flekkóttir og dílóttir; því að ég hefi séð allt, sem Laban hefir gjört þér.
13 Ég er Betels Guð, þar sem þú smurðir merkisstein, þar sem þú gjörðir mér heit. Tak þig nú upp, far burt úr þessu landi og hverf aftur til ættlands þíns.'"
14 Þá svöruðu þær Rakel og Lea og sögðu við hann: "Höfum við nokkra hlutdeild og arf framar í húsi föður okkar?
15 Álítur hann okkur ekki vandalausar, þar sem hann hefir selt okkur? Og verði okkar hefir hann og algjörlega eytt.
16 Aftur á móti eigum við og börn okkar allan þann auð, sem Guð hefir tekið frá föður okkar. Og gjör þú nú allt, sem Guð hefir boðið þér."
17 Þá tók Jakob sig upp og setti börn sín og konur upp á úlfaldana
18 og hafði á burt allan fénað sinn og allan fjárhlut sinn, sem hann hafði aflað sér, fjáreign sína, sem hann hafði aflað sér í Mesópótamíu, og hóf ferð sína til Ísaks föður síns í Kanaanlandi.
19 Þegar Laban var farinn að klippa sauði sína, þá stal Rakel húsgoðum föður síns.
20 Og Jakob blekkti Laban hinn arameíska, með því að hann sagði honum eigi frá því, að hann mundi flýja.
21 Þannig flýði hann með allt, sem hann átti. Og hann tók sig upp og fór yfir fljótið og stefndi á Gíleaðsfjöll.
22 Laban var sagt það á þriðja degi, að Jakob væri flúinn.
23 Þá tók hann frændur sína með sér og elti hann sjö dagleiðir og náði honum á Gíleaðsfjöllum.
24 En Guð kom um nóttina til Labans hins arameíska í draumi og sagði við hann: "Gæt þín, að þú mælir ekkert styggðarorð til Jakobs."
25 Og Laban náði Jakob, sem hafði sett tjöld sín á fjöllunum, og Laban tjaldaði einnig á Gíleaðsfjöllum með frændum sínum.
26 Þá mælti Laban við Jakob: "Hvað hefir þú gjört, að þú skyldir blekkja mig og fara burt með dætur mínar, eins og þær væru herteknar?
27 Hví flýðir þú leynilega og blekktir mig og lést mig ekki af vita, svo að ég mætti fylgja þér á veg með fögnuði og söng, með bumbum og gígjum,
28 og leyfðir mér ekki að kyssa dætrasonu mína og dætur? Óviturlega hefir þér nú farist.
29 Það er á mínu valdi að gjöra yður illt, en Guð föður yðar mælti svo við mig í nótt, er var: ,Gæt þín, að þú mælir ekkert styggðarorð til Jakobs.'
30 Og nú munt þú burt hafa farið, af því að þig fýsti svo mjög heim til föður þíns, en hví hefir þú stolið goðum mínum?"
31 Þá svaraði Jakob og mælti til Labans: "Af því að ég var hræddur, því að ég hugsaði, að þú kynnir að slíta dætur þínar frá mér.
32 En sá skal ekki lífi halda, sem þú finnur hjá goð þín. Rannsaka þú í viðurvist frænda vorra, hvað hjá mér er af þínu, og tak það til þín." En Jakob vissi ekki, að Rakel hafði stolið þeim.
33 Laban gekk í tjald Jakobs og tjald Leu og í tjald beggja ambáttanna, en fann ekkert. Og hann fór út úr tjaldi Leu og gekk í tjald Rakelar.
34 En Rakel hafði tekið húsgoðin og lagt þau í úlfaldasöðulinn og setst ofan á þau. Og Laban leitaði vandlega í öllu tjaldinu og fann ekkert.
35 Og hún sagði við föður sinn: "Herra minn, reiðstu ekki, þótt ég geti ekki staðið upp fyrir þér, því að mér fer að eðlisháttum kvenna." Og hann leitaði og fann ekki húsgoðin.
36 Þá reiddist Jakob og átaldi Laban og sagði við Laban: "Hvað hefi ég misgjört, hvað hefi ég brotið, að þú eltir mig svo ákaflega?
37 Þú hefir leitað vandlega í öllum farangri mínum; hvað hefir þú fundið af öllum þínum búshlutum? Legg það hér fram í viðurvist frænda minna og frænda þinna, að þeir dæmi okkar í milli.
38 Ég hefi nú hjá þér verið í tuttugu ár. Ær þínar og geitur hafa ekki látið lömbunum, og hrúta hjarðar þinnar hefi ég ekki etið.
39 Það sem dýrrifið var, bar ég ekki heim til þín, það bætti ég sjálfur, þú krafðist þess af mér, hvort sem það hafði verið tekið á degi eða nóttu.
40 Ég átti þá ævi, að á daginn þjakaði mér hiti og á nóttinni kuldi, og eigi kom mér svefn á augu.
41 Í tuttugu ár hefi ég nú verið á heimili þínu. Hefi ég þjónað þér í fjórtán ár fyrir báðar dætur þínar og í sex ár fyrir hjörð þína, og þú hefir breytt kaupi mínu tíu sinnum.
42 Hefði ekki Guð föður míns, Abrahams Guð og Ísaks ótti, liðsinnt mér, þá hefðir þú nú látið mig tómhentan burt fara. En Guð hefir séð þrautir mínar og strit handa minna, og hann hefir dóm upp kveðið í nótt er var."
43 Þá svaraði Laban og sagði við Jakob: "Dæturnar eru mínar dætur og börnin eru mín börn og hjörðin er mín hjörð, og allt, sem þú sér, heyrir mér til. En hvað skyldi ég gjöra þessum dætrum mínum í dag, eða börnum þeirra, sem þær hafa alið?
44 Gott og vel, við skulum gjöra sáttmála, ég og þú, og hann skal vera vitnisburður milli mín og þín."
45 Þá tók Jakob stein og reisti hann upp til merkis.
46 Og Jakob sagði við frændur sína: "Berið að steina." Og þeir báru að steina og gjörðu grjótvörðu, og þeir mötuðust þar á grjótvörðunni.
47 Og Laban kallaði hana Jegar Sahadúta, en Jakob kallaði hana Galeð.
48 Og Laban mælti: "Þessi varða skal vera vitni í dag milli mín og þín." Fyrir því kallaði hann hana Galeð,
49 og Mispa, með því að hann sagði: "Drottinn sé á verði milli mín og þín, þá er við skiljum.
50 Ef þú misþyrmir dætrum mínum og ef þú tekur þér fleiri konur auk dætra minna, þá gæt þess, að þótt enginn maður sé hjá okkur, er Guð samt vitni milli mín og þín."
51 Og Laban sagði við Jakob: "Sjá þessa vörðu og sjá þennan merkisstein, sem ég hefi reist upp milli mín og þín!
52 Þessi varða sé vitni þess og þessi merkissteinn vottur þess, að hvorki skal ég ganga fram hjá þessari vörðu til þín né þú ganga fram hjá þessari vörðu og þessum merkissteini til mín með illt í huga.
53 Guð Abrahams og Guð Nahors, Guð föður þeirra, dæmi milli okkar." Og Jakob sór við ótta Ísaks föður síns.
54 Og Jakob slátraði fórnardýrum á fjallinu og bauð frændum sínum til máltíðar, og þeir mötuðust og voru á fjallinu um nóttina.
55 Laban reis árla næsta morgun og minntist við sonu sína og dætur og blessaði þau. Því næst hélt Laban af stað og hvarf aftur heim til sín.